Aðfaranótt 29. nóvember 1671 varð Þormóður Torfason fornfræðingur manni að bana í gistihúsi á Sámsey norður af Fjóni. Þangað var hann kominn með séra Lofti Jósefssyni, Sigurði Ásgeirssyni og Torfa Hákonarsyni á leið til Kaupmannahafnar. Þeir höfðu siglt frá Skagaströnd tveimur mánuðum fyrr og gekk ferðin greiðlega til Amsterdam en í næsta áfanga urðu þeir skipreka við Skagen nyrst á Jótlandi. Þeir héldu landleiðina til Árósa og komust í bát sem í óveðri leitaði skjóls við þorpið Stavns á Sámsey. Samskipa voru þrír Danir sem hétu svo mikið sem Hans Pedersen Holbek, Hans Jørgensen og Sisse Pedersdatter. Atburðarás um nóttina má greina í yfirheyrslum í dómabók sem danski fræðimaðurinn Steffen Hahnemann nýtti fyrstur í bókinni Tormoder Torfeus på Samsø 1671–1672 (2017). Þar er á ferðinni blendingur af fræðimennsku og skáldskap, segir höfundur sjálfur, sem til dæmis tekur fram að frásögn af siglingunni frá Amsterdam sé frá honum komin. Hann eykur líka við því sem hann kallar „emotionelle spændinger, vel i nogen grad af erotisk karakter“ og birtast í meintri samkeppni Þormóðs og Hans Holbek um hylli Sisse.

Nú hefur Bergsveinn Birgisson lýst sömu atburðarás í bók um Þormóð sem er auglýst sem ævisaga og er ætlunin að afstýra því að minningin um hann þurrkist algerlega út (Þormóður Torfason. Dauðamaður og dáður sagnaritari, bls. 12). Bergsveinn styðst við dómabókina sem hann telur að „ætti að gefa skýrari mynd“ en önnur gögn (195) og að sögulokum klykkir hann út: „Nokkurn veginn þannig gerðist þetta samkvæmt vitnaleiðslum frá 13. desember 1671“ (206). Þýðandi bókarinnar úr norsku fullyrti í athugasemd við lofsamlega umsögn um verkið á fésbók 13. nóvember að um manndrápið á Sámsey byggði Bergsveinn „á nýfundnum heimildum – og vitnar samviskusamlega til þeirra eins og annarra heimilda.“ Hvort tveggja er rétt en það dugir skammt að vísa til heimilda og síðan segja eitthvað allt annað en þar kemur fram. Líkt og Hahnemann lætur Bergsveinn Íslendingana og Danina hittast á skipsfjöl í Amsterdam. Hann lýsir ekki strandinu við Skagen en gerir sér í hugarlund „að Þormóður hafi átt vingott við Sisse hina ungu“ sem svo varð honum fráhverf og laðaðist „að hinum ljóshærða landa sínum, Hans Holbeck“ (198). Ekki eru tilgreindar heimildir fyrir þessu – enda eru þær ekki til – en um atburði næturinnar er áréttað: „Út frá vitnaleiðslum þessara sjö ferðalanga getum við endurgert hluta af þeirri atburðarás sem varð þessa nótt á gistihúsinu á Sámsey“ (201). Við yfirheyrslur hafi Torfi Hákonarson sagt að Hans Holbek hafi beðið Þormóð um að fara að sofa og telur Bergsveinn að hann hafi þannig ætlað að losa sig við keppinaut um ástir Sisse. Þormóður fór á nærfötunum inn í herbergið til Sisse sem neitaði að fara út þrátt fyrir beiðni húsfreyju sem svo læsti að utan þegar Þormóður óskaði eftir því að fá að vera einn. Þá var Hans nóg boðið; hann ærðist og braut upp dyrnar „með braki og brestum.“ Þormóður rak upp skelfingaróp og tók fram hníf sinn: „Hann sér blóðugt andlit frammi fyrir sér, afmyndað af afbrýðisemi og reiði: „Hún er MÍN,“ getur Þormóður lesið úr trylltu augnaráðinu. Hans Holbeck snýst gegn Þormóði, einnig með hníf í hendi, hann víkur sér undan en er lokum eins og afkróað dýr“ (204–205).

Á vefsetri ríkisskjalasafns Danmerkur eru skannaðar örfilmur dómabóka og þar er Sámseyjarbókin 1667–1672 (Vef. www.sa.dk). Samanburður við þann texta sem þar gefur að líta leiðir í ljós að frásögn Bergsveins um morðið er einskær tilbúningur litaður kynórum sem hvergi sér stað í yfirheyrslum. Þar birtast drykkjulæti og slagsmál gesta sem Þormóður reyndi að komast undan af ótta við að vera drepinn, með þeim afleiðingum að hann stakk Hans Holbek í kviðinn þegar hann réðst að honum. Þetta útskýrði ég í ritdómi um norska gerð bókarinnar í vorhefti tímaritsins Sögu í fyrra; hún heitir Mannen fra middelalderen. Historikeren og morderen Tormod Torfæus (2020). Í þýðingunni er dómsins ekki getið en tekið tillit til fáeinna smáatriða sem ég benti á og afskræmingunni að öllu leyti haldið til streitu. Það sama á við um rangfærslur um að Þormóður hafi verið rekinn úr starfi þýðanda árið 1664 og sendur til Noregs. Þetta veldur því að bókinni er ekki treystandi sem fræðilegu framlagi eða ævisögu og þá duga hvorki 779 neðanmálsgreinar né 18 blaðsíðna ritaskrá. Þetta er miður því byggt er á viðamikilli rannsókn og fyrirliggjandi fræðimennska er nýtt af miklu hugviti. Skáldlegir sprettir hér og þar koma ekki að sök því ýmist varar Bergsveinn við eða tilþrifin eru svo augljós að engum dettur í hug að tekið sé mið af heimildum. Allt er það innan skekkjumarka en ekki blekkingar sem vísvitandi ganga á sveig við heimildir sem þó er vísað til.