Ég átti smá móment um daginn með Hófí kærustunni minni og eldri konu.

Við vorum í göngutúr í Stokkhólmi og stoppuðum hjá lítilli kirkju þarna einhvers staðar í Södermalm. Það var sunnudagur, klukkan var þrjú og það var smá kalt. Hjá kirkjunni voru runnar og í runnunum voru litlir fuglar og litlu fuglarnir voru að tína berjaafganga af runnunum. Við Hófí stóðum og horfðum á runnana og fuglana og Hófí sagði að það væru allavega tíu fuglar þarna og þegar ég var að telja þá gekk hún tröppurnar, eldri konan. Hún stóð með okkur um stund og horfði á runnana og fuglana og okkur til skiptis og við horfðum á hana og fuglana og hana og runnana og í smá stund horfðum við á hana og hún á okkur. Hún brosti til okkar og gekk inn í kirkjuna, af baksvipnum að dæma brosti hún alla leiðina inn.

Ætli hún fari ekki í kirkju alla sunnudaga? Ætli hún hitti ekki vini sína þar? Ætli henni þyki það ekki friðsælt, að sitja þarna? Ætli hún hafi ekki skoðun á prestinum sem hún deilir með fjölskyldu sinni? Kannski hringir hún í dóttur sína eftir messu alla sunnudaga, verkfræðinginn dóttur sína, og segi henni um hvað predikunin snerist. Kannski gerir hún það í veikri von um að dóttir hennar fylgi henni til messu næsta sunnudag. Kannski í enn veikari von um að fá barnabörnin með en: „Nei mamma, við ætlum þeim veraldlegt uppeldi. Við erum afhuga kirkjunni.“ Ætli hún hafi talað um þetta móment okkar við dóttur sína? Kannski man hún samt ekkert eftir okkur. Ég man allavega eftir runnunum og fuglunum og henni.