Alþingi er æðsta stofnun þjóðarinnar. Alþingi heyrir ekki undir neinn nema þjóðina sjálfa. Framkvæmdavaldið situr í umboði Alþingis. Ríkisendurskoðun heyrir undir Alþingi, og kýs Alþingi ríkisendurskoðanda.
Þeir sem fylgst hafa með umræðu um greinargerð Sigurðar Þórðarsonar, fyrrverandi setts ríkisendurskoðanda í málefnum Lindarhvols, undanfarna daga og vikur, gætu hæglega dregið þá ályktun að Alþingi sé annars flokks stofnun sem sitji í skjóli framkvæmdavaldsins. Ókunnugum fyrirgæfist að trúa því að Alþingi heyri undir Ríkisendurskoðun en ekki öfugt.
Ástæðan fyrir þessu er vitanlega sá dæmalausi farsi sem forseti Alþingis stendur fyrir með því að taka við fyrirmælum frá fjármálaráðherra.
Birgir Ármannsson á bágt í þessu máli. Öllum er ljóst að ekki er það að hans frumkvæði sem leyndarhulunni er sveipað um starfsemi Lindarhvols og „sjoppulegt“ ferli við sölu eigna, en reyndur bankamaður bar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í Lindarhvolsmálinu í janúar að söluferli Klakka hefði verið „sjoppulegt“.
Engum dylst að Birgir fær fyrirmæli frá formanni flokks síns, fjármálaráðherranum. Birgir hefur í gegnum allan sinn þingferil sýnt að hann er flokkshollur maður. Ekkert er út á það að setja í sjálfu sér.
Nú gegnir Birgir hins vegar mestri virðingarstöðu æðstu stofnunar þjóðarinnar. Nú eru skyldur hans við þingið og þjóðina en ekki við flokkinn sem hann hefur þjónað svo dyggilega svo lengi.
Raunar virðist þöggunin í þágu fjármálaráðherra vera komin að fótum fram. Allir nefndarmenn forsætisnefndar Alþingis, nema Birgir Ármannsson, greiddu því atkvæði í vikunni að birta greinargerð Sigurðar Þórðarsonar.
Við atkvæðagreiðslu um hvort heimila ætti þingmanni að spyrja forseta þingsins út í greinargerð Sigurðar, kom vel fram að þingmeirihluti er fyrir því að birta greinargerðina, enda hefur hún í raun verið opinbert plagg frá því í ágúst 2018, þegar Sigurður sendi Alþingi hana.
Í vikunni úrskurðaði úrskurðarnefnd um upplýsingamál að fjármálaráðuneytinu/Lindarhvoli bæri að afhenda forsvarsmönnum Frigusar II, sem staðið hafa í málaferlum við ríkið og Lindarhvol vegna hins „sjoppulega“ söluferlis Klakka, lögfræðiálit og minnisblöð frá Magna lögmönnum, sem lagt var til grundvallar þegar forsætisnefnd Alþingis, að tillögu Birgis Ármannssonar!, samþykkti einróma að afhenda blaðamanni Viðskiptablaðsins umrædda greinargerð í apríl í fyrra.
Lögfræðiálitið er ítarlegt, heilar 37 blaðsíður. Það var afhent í gærkvöldi og eftir lestur þess blasir við að málflutningur Birgis Ármannssonar, og annarra sem hafa staðið vörð um Leyndarhvol, eins og Lindarhvoll er stundum nefndur af gefnu tilefni, gengur markvisst í bága við lög og reglur. Er það lágt lagst hjá þeim sem eiga að standa vörð um virðingu Alþingis Íslendinga og hafa eftirlit með framkvæmdavaldinu en ekki lúta því.