Margir Íslendingar þjást af molbúahætti. Það verður ekki annað ráðið af viðbrögðum við mögulegum kaupum fransks innviðasjóðs á Mílu af Símanum.

Meira að segja Evrópusinnar sem horfa ef til vill hýru auga til Frakklands, eins og þingmenn Samfylkingar og Viðreisnar, risu upp á afturlappirnar.

Erlend fjárfesting er þjóðhagslega mikilvæg. Með auknu fjármagni fjölgar til dæmis möguleikum til innlendra fjárfestinga, mannauður eflist með samstarfi við erlenda sérfræðinga og áhættu er dreift á fleiri herðar. Hún skiptir miklu máli fyrir lítil einsleit hagkerfi eins og Ísland og stuðlar að hagvexti, stöðugleika og aukinni framleiðni.

Hömlur á erlenda fjárfestingu á Íslandi eru með þeim mestu innan OECD-ríkjanna – molbúa­hátturinn er jú ekki nýtilkominn. Slíkar fjárfestingar hafa enda verið hlutfallslega litlar miðað við nágrannaríki okkar.

Það er óþarfi að óttast sölu á Mílu. Míla hefur verið í höndum fjárfesta frá einkavæðingu Símans árið 2005. Það ríkir samkeppni í rekstri fjarskiptainnviða en 85 prósent af heimilum landsins eru með ljósleiðaraþræði frá öðrum en Mílu og það eru þrjú farsímakerfi í landinu. Enn fremur stýrir Fjarskiptastofa með kvöðum og gjaldskrám um það bil tveimur þriðju af tekjum Mílu. Verðið getur því ekki hækkað úr öllu valdi við söluna.

Atvinnuvegaráðherra hefur auk þess heimild til að stöðva erlendar fjárfestingar ef óttast er að Frakkarnir selji Mílu til einhverra sem liggja munu á hleri. Þá upplýsti forstjóri Símans að unnið væri að því að tryggja betur möguleika hins opinbera til eftirlits og inngripa.