Suma daga fyllist ég djúpu þakklæti yfir að vera miðaldra karl en ekki ungur maður. Samtíminn er síbreytilegur og það verður seint sagt að lífið sé að verða einfaldara.
Þegar ég var ungur var það nánast óþekkt að fólk móðgaðist fyrir hönd annarra. Þetta ástand hefur aukist mjög undanfarin ár. Algengt er að þegar einstaklingar sem auðveldlega móðgast fyrir hönd annarra móðgast, þá spretti fram mikil og sterk þörf til að láta aðra vita af ósvífninni. Um leið geta hinir sömu slegið tvær flugur í einu höggi með því að láta í ljós eigin mannkosti með því að benda á slæma hluti í hegðun annarra. Sumir hafa kallað slíka hegðun dyggðaskreytingu og telja sumir slíka skreytingu fullkomlega eðlilegt viðbragð við því að móðgast fyrir hönd annarra.
Sjálfur hef ég móðgað fólk, sem ekki vissi af því, með skrifum mínum hér á þessa baksíðu. Eitt sinn fékk ég langan póst á Facebook um hversu særandi einn pistill sem ég skrifaði hefði verið. Mér brá við og þegar ég gekk á viðkomandi kom í ljós að hann hefði verið mjög særandi fyrir aðra en hann. Það hefði hann fengið staðfest þegar hann hafði þó séð þónokkra vini sína móðgast mjög eftir að hann deildi pistli mínum á samfélagsmiðlum með lýsingum um hversu móðgandi hann væri. Þegar þarna var komið við sögu varð ég hugsi og taldi best að biðjast afsökunar. Þá svaraði sendandi mér pent og sagðist ekki getað tekið við afsökunarbeiðninni þar sem ég hefði sært aðra en hann.