Suma daga fyllist ég djúpu þakk­læti yfir að vera mið­aldra karl en ekki ungur maður. Sam­tíminn er sí­breyti­legur og það verður seint sagt að lífið sé að verða ein­faldara.

Þegar ég var ungur var það nánast ó­þekkt að fólk móðgaðist fyrir hönd annarra. Þetta á­stand hefur aukist mjög undan­farin ár. Al­gengt er að þegar ein­staklingar sem auð­veld­lega móðgast fyrir hönd annarra móðgast, þá spretti fram mikil og sterk þörf til að láta aðra vita af ó­svífninni. Um leið geta hinir sömu slegið tvær flugur í einu höggi með því að láta í ljós eigin mann­kosti með því að benda á slæma hluti í hegðun annarra. Sumir hafa kallað slíka hegðun dyggða­skreytingu og telja sumir slíka skreytingu full­kom­lega eðli­legt við­bragð við því að móðgast fyrir hönd annarra.

Sjálfur hef ég móðgað fólk, sem ekki vissi af því, með skrifum mínum hér á þessa bak­síðu. Eitt sinn fékk ég langan póst á Face­book um hversu særandi einn pistill sem ég skrifaði hefði verið. Mér brá við og þegar ég gekk á við­komandi kom í ljós að hann hefði verið mjög særandi fyrir aðra en hann. Það hefði hann fengið stað­fest þegar hann hafði þó séð þó­nokkra vini sína móðgast mjög eftir að hann deildi pistli mínum á sam­fé­lags­miðlum með lýsingum um hversu móðgandi hann væri. Þegar þarna var komið við sögu varð ég hugsi og taldi best að biðjast af­sökunar. Þá svaraði sendandi mér pent og sagðist ekki getað tekið við af­sökunar­beiðninni þar sem ég hefði sært aðra en hann.