Það er óþarft að rekja þær raunir sem heimsbyggðin hefur gengið í gegnum vegna faraldursins sem farið hefur yfir lönd og álfur undanfarna mánuði og svíður allt sem okkur er kært – afkomu, samskipti og mannlega nánd. Öllu hefur verið snúið út á rönguna og daglegt líf er vart svipur hjá sjón.

Í upphafi vonuðu allir að ástandið yrði skammvinnt en það reyndist öðru nær.

Um heiminn hafa á áttunda milljarð manna verið lagðar meiri hörmungar en nokkurn óraði fyrir. Þó ýmsir sjái sitthvað fyrir – og þá aðallega eftir á, gat enginn búist við því að píslin sem þessi veira er gæti valdið þeim hamförum sem raunin er. Mestu hamfarirnar eru þó af þeim viðbrögðum sem gripið var til.

Rétt er að rifja upp að eftir því sem helst hermir er uppsprettan sérkennilegur matarsmekkur í fjarlægu landi. Og ekki í fyrsta sinn sem faraldur harðdrægra farsótta á sér svipaðan uppruna.

Það er fullkomlega óþolandi að tilvist jarðarbúa sé sett í uppnám fyrir mataræði hlutfallslega fremur fámenns hóps. Þó eru af því fréttir að fátt hafi breyst í átthögum faraldursins. Þar séu sóttkveikjur á boðstólum eins og áður. Vonandi reynast þær orðum auknar.

Allt að einu hefur nú kviknað ljós, vonum fyrr. Nú bendir til að nýtt bóluefni standist ítrustu kröfur og verði framleitt í ótölulegu magni svo bólusetja megi alla heimsbyggðina. Margir varpa öndinni léttar.

Sú atlaga að andlegri heilsu fólks, með skelfingu, sífelldum fréttum af talnaefni ýmiss konar og brýningu um hversu hættulegt sé að vera til um þessar mundir, hefur unnið á andlegu jafnvægi okkar. Tíminn mun leiða í ljós hvort innstæða var fyrir öllu því.

Við þessar aðstæður veldur það kvíða og enn auknu óöryggi að ekki liggi fyrir hvernig staðið verður að bólusetningu. Hverjir verða í forgangi, hvernig bólusetning mun fara fram, hversu langan tíma hún mun taka og hvort nægt bóluefni verði til. Þetta eru atriði sem knýjandi þörf er á að fáist svör við.

Alþekkt er að bólusetning dugar ekki þeim sem tekið hafa sótt, af hvaða sort sem hún er. Viðbúið er því að sóttvarnir verði í gildi á meðan ásættanlegu hlutfalli bólusettra verður náð.

Það er því áríðandi að fram komi upplýsingar um hvert mat sóttvarnayfirvalda er á því hversu lengi við þurfum að búa við takmarkanir þó bólusetning sé hafin.

Hvernig sem allt hvolfist og fer eygir nú mannkyn langt og mjótt ljós sem vonir allra standa til að geti lýst okkur leiðina út úr hörmungum faraldursins. Dag einn verður sem tjöld séu dregin frá og daglegt líf verður samt á ný. Það verður dýrlegur dagur.

Faraldurinn mun þó skilja eftir sig varanleg ummerki. Traust á ferðalögum, þátttöku í fjölmenni og almennt samneyti fólks hefur beðið hnekki, að minnsta kosti um hríð. Sennilega verðum við tortryggnari og varari um okkur. Handabandið og faðmlagið er líklega enn lengra undan. En langvinnust verða hin efnahagslegu áhrif.

Við verðum lengi að bíta úr nálinni með þau.