Mistök verða þar sem mannshöndin kemur við sögu. Annað er óhugsandi. Lífið er svo flókið að sennilega ræður oft heppni meira en útsjónarsemi um að manni verði ekki á.Afleiðingar mistaka eru hins vegar afar mismunandi. Allt frá því að skipta engu yfir í þau sem mikil áhrif hafa.

Svo virðist sem slíkt hafi gerst við talningu atkvæða í Norðvesturkjördæmi með miklum afleiðingum fyrir framtíð tíu einstaklinga sem ætla ekki að sitja þegjandi undir því. Við erum vön að geta treyst kjörstjórnum og það er sérstakt áfall þegar skuggi fellur á það traust.

Að baki þessum mistökum er mannshöndin og líklega hafa þau sem að framkvæmdinni komu átt erfiða daga. Fáir virðast hafa samúð með því, en það er ekki sanngjarnt – því þar sem mannshöndin kemur við sögu má búast við mistökum, jafnvel á ögurstundu.

Það eru úrvinnslan og eftirmálin sem öllu skipta, hver sem afleiðingin verður.Sum mistök eru gríðarlega alvarleg og má nefna alvarleg atvik í flókinni starfsemi heilbrigðisþjónustunnar sem varða jafnvel líf. Oftast eru atvikin afleiðing þess að margt fer úrskeiðis, en mannshöndin kemur nánast alltaf við sögu.

Fólk væntir góðs árangurs af heilbrigðisþjónustunni og á að geta gert það. Þegar illa fer er það gríðarlegt áfall fyrir alla hlutaðeigandi og því óendanlega mikilvægt að skoða ofan í kjölinn hvað fór úrskeiðis og gera allt til þess að koma í veg fyrir endurtekningu.

Höfum í huga: „Mistök eru mannleg, að hylma yfir þau er ófyrirgefanlegt en að læra ekki af þeim er óafsakanlegt.“ (Sir Liam Donaldson).