Hér í eina tíð var Þorláksmessa eini dagurinn í desember sem verslanir höfðu opið lengur en til klukkan 18. Þá fylltist miðbærinn af fólki sem margt átti eftir að kaupa jólagjafir og þá var oft handagangur í öskjunni!

Þá eins og nú var Þorláksmessa vinsæl til að hittast í miðbænum og var vín ekki ósjaldan með í för. Margir kunnu sér ekki hóf og hrukku upp við það rétt fyrir lokun að enn átti eftir að klára jólagjafakaupin og eiga kaupmenn margar sögur af því þegar góðglaðir eiginmenn birtust og áttu eftir að „kaupa bara eitthvað“ handa eiginkonunni. Þessi saga fjallar um slík kaup.

Vinkona mín var bæði kvíðin og spennt fyrir þessum jólum enda í fyrsta skipti sem hún fagnaði jólunum með kærastanum, enda nýbyrjuð að búa. Á Þorláksmessu var haldið í bæinn en þar skildu leiðir, enda ætluðu þau að hitta hvort sinn vinahópinn – en ekki síst skildu leiðir þar sem þau áttu eftir að kaupa jólagjöfina hvort handa öðru. Kærastinn skilaði sér reyndar seint heim og ekki í sérlega góðu ásigkomulagi og heilsan daginn eftir var eftir því. Allt þetta fyrirgaf vinkona mín enda blasti við henni óvenju gerðarleg jólagjöf undir jólatrénu.

Eftir mat fóru skötuhjúin að taka upp pakka og seinast var pakkinn frá kærastanum opnaður með tilheyrandi eftirvæntingu. Í ljós kom eldvarnarteppi sem hann hafði keypt á miðjum Laugavegi í sölubás slökkviliðsins. Kærastinn mundi þó ekki fyllilega hvernig þessi vörukaup gengu eftir, en taldi svona eftir á að hyggja þetta ekki slæma jólagjöf enda hans heittelskaða reynslulítil í eldhúsinu og allur væri jú varinn góður.

Þau skildu nokkrum árum síðar.