Eitt sinn töldu menn milljónir. Kúlur og krónur. Núllum var bætt aftan við sjálfsmyndina.

Svo var Ísland Game Over.

Þá fóru menn að telja mínútur.

Upp að steini, svo Hvannadalshnjúk. Sækóþon. Landvættir.

Svo fara hnén að kvarta og þá eru taldar mínútur í djúpsvefni.

Vel tanaðar talningavélarnar hóta hver annarri ótímabærri elli og heilarýrnun ef djúpsvefninn er ekki lágmark 55 mínútur á nóttu. Jafnvel besta spandexið felur ekki illa sofna aumingja.

Hvernig fer þá fyrir okkur barnafólkinu sem „sofumaldreiheilanótt“ (sagt á innsoginu) né heila klukkustund?

Fótur í andlit, pissuslys, martröð, tala upp úr svefni, ganga í svefni eða guð hjálpi okkur ef allt er með kyrrum kjörum þá vaknar fólk samt samkvæmt áralangri þjálfun.

Er ég dæmd til þess að vera lifandi dauð að eilífu vegna djúpsvefnssveltis?

Já og sumarfríið segið þið. Sofa út þá?

Alls. Ekki.

Sumarfrí með börn er nefnilega eitt samfellt samningstímabil sem byggir helst á hótunum en er brotið upp með sundferðum og sjálfsásökunum.

Mín eina leið til andlegrar heilsu er að falla í mínútumaníupyttinn í viðleitni til að hafa stjórn á einhverju. Á hlaupum mínum í gegnum friðað æðarvarp með kríuský sleikjandi á mér sveitt ennið varð mér hugsað til Tómasar Guðmundssonar og þeirrar staðreyndar að manían er ekki ný. Aðeins áþreifanlegri og nú með filter.

Urð og grjót, upp í mót, huggulegt stanslaust blót.

Verða að skila mínútum undir fót, til þess eins að standast mannamót.