Sigríður Andersen fullyrti á dögunum að endurupptökunefnd, sem fljótlega heyrir til tyrfinnar sögu íslenskrar stjórnsýslu, hafi verið stofnuð af vinstristjórn Jóhönnu Sigurðardóttur til þess eins að „leysa“ Guðmundar- og Geirfinnsmál. Þetta sagði Sigríður í athyglisverðri ræðu sem hún hélt stuttu áður en Alþingi samþykkti frumvarp Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur um stofnun endurupptökudóms, en dómurinn á að leysa nefndina af hólmi. (Sjá aðallega þann hluta ræðunnar sem hefst á 17. mínútu.)

Það má alls ekki gerast, sagði dómsmála­ráðherrann fyrrverandi svo, að „almenningi verði gefnar óraunhæfar væntingar“, að þegar málum er lokið fyrir dómi „séu einhverjir möguleikar til að fá slík mál uppgefin, jafnvel þótt finnist eitthvað sem mönnum finnst hafa skipt máli. Það eru, og eiga að vera eftir sem áður, mjög þröng skilyrði fyrir því að endurupptaka mál. Öðruvísi fáum við ekki lifað hér saman í sátt og samlyndi.“

Við afgreiðslu frumvarpsins í þinginu, þangað sem það var upphaflega sent inn af Sigríði sjálfri, þótti stjórnarliðum – og reyndar stjórnarandstöðunni líka – nægja að staðhæfa að núgildandi fyrirkomulag, þar sem óháð stjórnsýslunefnd ákveður af eða á um endurupptöku dæmdra mála, sé ótækt þar sem það brýtur í bága við grundvallarregluna um þrískiptingu ríkisvalds. Sann­færingin um þetta atriði virtist svo almenn og djúpstæð í þingsalnum að um hana þurfti ekki að framreiða svo mikið sem eina ódýra röksemd.

Því þekkt er álit Hæstaréttar að endurupptökunefnd stangist á við ákvæði stjórnar­skrárinnar um þrígreiningu ríkisvalds, umfram allt vald nefndarinnar til að fella úr gildi gamla dóma. En snýst sú hugsjón ekki líka um að skapa sæmilegt aðhald greinanna á milli svo ein geti ekki greiðlega gerst sek um alvarlegt misferli á sínu sviði? Og þegar upp kemst um misgjörðir, þarf ekki að vera hægt að draga hina brotlegu grein til svara?

Mál þetta vekur upp ótal fleiri spurningar, og nefnast nú nokkrar þeirra.

Er enginn munur á ræðutækni Sigríðar Andersen og þeirrar sem beitt er til að viðhalda aga í grunnskólum landsins?

Hvaða heimildir hefur Sigríður fyrir því að vinstriflokkarnir hafi stofnað endurupptöku­nefnd til þess einvörðungu að hleypa upp Guðmundar- og Geirfinnsmálum? Hvað segir þessi stað­hæfing um hugarflug, hvatir og aðgerðir þeirrar sem henni heldur fram? Einhverjum nöfnum yrði sá eflaust kallaður sem héldi því fram að Sjálfstæðisflokkurinn hefði teflt fram sínu frumvarpi um endurupptöku­dóm til þess eins að bregðast við þeim einstaka áfellisdómi sem íslenskt réttarfar sætti í úrskurðum endurupp­töku­­nefndar í Guðmundar- og Geirfinnsmálum, því auðvitað eru engin opinber gögn sem gefa í skyn að svo sé. En slík virðist vigt málanna vera í augum Sigríðar.

Aukinheldur. Er dómsmálaráðuneytinu enn stýrt af Sigríði Andersen? Er hún kannski þegar búin að handvelja dómarana sem á að ráða inn í þennan nýja dóm? Eiga makar rétthugsandi þing­manna nú loksins að fá sitt tækifæri? Á að fá Andra Árnason, settan ríkis­lögmann í bótamálum þeim sem nú standa yfir útaf Guðmundar- og Geirfinnsmálum – sem byggir málatilbúnað sinn gegn okkur einmitt á þeirri fjarstæðu að úrskurðir endurupptökunefndar hafi svo gott sem ekkert sannleiks­gildi – til að kvitta undir ráðningarnar í nafni óháðrar hæfisnefndar?

Mega nú barnaverndanefndir, og allur sá fjöldi stjórnsýslunefnda sem daglega úrskurðar um hin ýmsu mál sem bera hverskyns einkenni dómsmála, vænta þess að meistarar hins guðlega samræmis stjórnskipunarinnar snúi sér að þeim og þeirra hefðbundnu valdheimildum? Munu þeirra störf líka vera lögð niður til að fullnægja meintum boðorðum stjórnar­skrárinnar?

Hverju í ósköpunum getur Sigríður Andersen hafa lent í til að skapa í huga hennar heims­mynd þar sem „almenningi“ er það lífsnauðsynlegt að vera algjörlega undirgefinn yfirvöldum? Að undirgefnin – jafnvel andspænis réttarfarslegum stórslysum – sé eina leið fólks til að lifa hér í sátt og samlyndi við samborgara sína?

Og umfram allt kannski að lokum: ef endurupptökunefnd var, eins og Sigríður Andersen virðist telja, sett á laggirnar því Hæstarétti mistókst að bregðast við blygðunarlausum glæpum ríkisins gegn varna­lausum ungmennum, þá hlýtur sú spurning að vakna hvort einhver endurbót hafi náð fram að ganga á þeim árum sem síðan hafa liðið. Er það kannski svo að Hæstiréttur sé búinn að taka út sína refsingu á síðustu árum? Eigum við, fólkið sem rétturinn braut á og að­stand­­end­ur þeirra, ekkert að hafa um það að segja?

Vissulega hefur margt verið gert vel í þessum málaflokki á síðustu árum. Þórhildur Sunna Ævars­dóttir bendir þannig á ýmislegt gott sem féll í skaut áðurnefnds frumvarps um endurupptöku­dóm fyrir tilstilli kröftugrar stjórnarandstöðu við upphaflegt frumvarp Sigríðar Andersen. Þetta eru atriði sem gera dóminn nýja verðugri trausts en ella, svosem um fjölda og hlutfall dómara sem ekki koma úr röðum dómskerfisins sjálfs. Sú vinna á auðvitað skilið hið einlæglegasta lof frá þeim okkar sem hafa þurft – og munu þurfa – að leita eftir því að dæmd mál séu endurupptekin.

Og kannski er skömm Hæstaréttar orðin nægileg, sérstaklega nú þegar gamla kynslóðin, sem ber sinn skerf af ábyrgð á örlögum dómþolanna fyrrum, er loks farin frá. Hver veit – kannski verðskulda þessi nýju dómarahjörtu meira traust en þau gömlu.

En gleymum því samt ekki að það var einörð afstaða Hæstaréttar í garð endurupptöku­nefndar sem hafði í för með sér „réttaróvissuna“ sem endurupptökudómur á að eyða. Einhverjir þar á bæ kusu að bregðast af fullu afli við endurupptökunefnd og lagalegum grundvelli hennar. Það þurfti ekki að gerast, þó það hefði mátt vera fyrirséð: auðvitað átti Hæstiréttur alltaf eftir að vilja fá valdið heim, eins og smánað foreldri vill fá brottnumið barn sitt aftur í sína umsjá.

Við því vandræðalega ástandi sem upp var komið milli dóms- og framkvæmdavalds var heilbrigð lausn vandfundin. Varla átti löggjafinn mikið erindi í harða deilu við Hæstarétt – betra væri kannski fyrir „réttaröryggið“ í landinu að lúffa bara ósköp mjúklega. En það skal sagt hér í framhjáhlaupi, að Alþingi hefði getað ítrekað þann vilja sem stóð að baki upprunalegu löggjöfinni frá 2013 með því að efla endurupptökunefnd í stað þess að leggja hana niður.

Þetta finnst mér að vinstriflokkarnir, Samfylkingin og Vinstri græn, hefðu alveg mátt segja upp­hátt við framvindu þessa máls dómsmálaráðherra. Þeir flokkar ættu síður en svo að þurfa að skammast sín fyrir þetta vandræða­úrræði sitt, endurupptökunefnd; valdið var nefnilega tekið af heimili sínu og sett þangað því foreldrið var ekki fært um að rækja það.

Eftir sitja margfalt fleiri ósvaraðar spurningar, ólærðar lexíur, óuppgerð dómsmál og vanreifuð álitaefni.

Samfélagið þarf að fá að vita meira um og skilja betur orsakir hinna röngu dóma í Guðmundar- og Geirfinnsmálum og afleiðingar þeirra. Það á heimtingu á að fá svör við því að hvaða marki misréttið í heild heyrði undir lögregluna, hver þáttur sakadóms var, hvernig Hæstiréttur braut af sér og hvernig embætti saksóknara fór yfir sín vald­svið. Fólk vill líka vita að hvaða marki stjórn­mála­menn báru ábyrgð á þeirri atburðarás sem fram vatt, hver var hlutur erlendra erindreka og þeirra aðferða sem þeir kynntu samanborið við aðferðir innlendu rannsakendanna. Þessi atriði – og fjölmörg fleiri – hafa alls ekki verið leidd til lykta. Um þau eru líka afar skiptar skoðanir, eins og fram hefur komið í opinberri umræðu síðastliðin ár, sem sárlega skortir vettvang til að takast á. Slíkur vettvangur hefur hingað til ekki sprottið upp af sjálfsdáðum í háskólum landsins, ein­hverra hluta vegna.

Það þarf líka að sporna af alvöru gegn fordómum af því tagi sem gegnsýrðu málsmeðferðina í Guðmundar- og Geirfinns­málum á sínum tíma. Í þeim efnum fer því fjarri að öll baráttan sé unnin. Nefnist til glöggvunar í því samhengi þáttur setts ríkissaksóknara í endurupptökuferli þeirra mála, sem og óforskömmuð framganga setts ríkislögmanns síðan sýknudómarnir féllu. Þessir menn stunda það sem kallast þolendaskömmun. Mín fjölskylda er tilbúin, nú sem fyrr, að koma að því verkefni að benda á og uppræta slíka fordóma í réttarkerfinu við hlið stjórnvalda.

Á þessum snúnu viðfangsefnum hefur sitjandi ríkisstjórn hins vegar sýnt afar takmarkaðan áhuga. Maður leyfir sér þó að vona að Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis finni hjá sér hugrekkið til þess að veita brautargengi fyrirliggjandi þingsályktunartillögu um stofnun rannsóknar­nefndar þeirrar sem mín fjölskylda og aðrar í sambærilegri stöðu hafa kallað eftir. Afrakstur þeirrar vinnu getur svo kannski byrjað að gefa okkur vísbendingar um það hvort valdatilfærsla vinstristjórnarinnar, með stofnun endurupptökunefndar árið 2013, hafi verið temmilegt og verðskuldað „högg“ í garð Hæstaréttar eður ei.