Ragna Sól Evudóttir fæddist á Landspítalanum Hringbraut þann 15. maí 1998. Hún var duglegt barn sem hafði unun af því að teikna, mála og föndra. Hún æfði handbolta með Haukum og söng í Barna- og Unglingakór Hafnarfjarðarkirkju. Auk þess fengu hún og félagar hennar verðlaun á Söngkeppni Samfés árið 2014, fyrir atriðið með mesta skemmtanagildið.

Ragna Sól stóð sig afburða vel í námi, og útskrifaðist úr Menntaskólanum við Hamrahlíð í desember 2017, með áherslu á myndlist og tungumál. Hún hafði mikinn áhuga á jafnréttismálum, en hún var í stjórn femínistafélagsins Emblu í Menntaskólanum við Hamrahlíð í þrjú ár. Hún var einnig sjónrænn stjórnandi leiksýningar Menntaskólans við Hamrahlíð árið 2016. Samhliða námi vann hún sem kaffibarþjónn á Kaffitári.

Ragna Sól var mikill listamaður og vann sjálfstætt listrænt verkefni á vegum Listhópa Hins Hússins sumarið 2017 undir nafninu Götusól. Verkefnið snerist um það að dreifa jákvæðni og kærleik í formi götulistar.

Að menntaskólanámi loknu starfaði hún í Frístundarheimili í Skarðshlíðarskóla í hálft ár, en eftir það sótti hún eins árs fornám við Myndlistaskóla Reykjavíkur.

Ragna Sól var alltaf jákvæð og kærleiksrík, en húmorinn var alltaf viðloðandi. Ragna Sól var félagslynd og blíð, en átti það til að tala mikið. Hún var alltaf góð við þá sem minna máttu sín.

Þetta er minning um mig, eins og ég var.

Ég kom út sem kynsegin árið 2018, þegar ég var tvítugt. Ég breytti um nafn þegar ég var tuttugu og eins árs gamalt, úr Rögnu yfir í Regn, og tók upp fornafnið hán. Það að komast að því að ég væri kynsegin var einskonar hugljómun. Ég passaði aldrei alveg inn í stelpuhópa, og ekki strákahópa heldur, en mér leið ekki beint illa neinsstaðar. Ég var bara öðruvísi.

Þegar ég kom út varð ég að nýrri manneskju, sterkari og með meira sjálfstraust. Það tók samt tíma, því í byrjun var ég lafandi hrætt. Hrætt við fordóma og álit annarra á mér. Hvað myndi fólki finnast um mig? Myndi það hætta að elska mig? Stutta svarið er nei. Allir sem hafa orðið á vegi mínum, í gegnum mitt stutta líf sem Regn, hafa sýnt mér umburðarlyndi, skilning og virðingu, sem ég er mjög þakklátt fyrir.

Þrátt fyrir að vera ný manneskja, samkvæmari sjálfu mér og sjálfsöruggari, þá þykir mér vænt um Rögnu Sól og allt sem hún hefur kennt mér.

Í tilefni þess að hafa breytt um nafn löglega í Þjóðskrá, ætla ég að halda minningarathöfn um Rögnu Sól Evudóttur. Minningarathöfnin verður haldin á gjörningakvöldi á vegum LHÍ föstudaginn þann 5. mars. Gjörningakvöldið verður haldið í OPEN, Grandagarði 27, 101 Reykjavík frá 17-19.

Regn Sólmundur Evudóttir er nemandi á öðru ári í myndlist við Listaháskóla Íslands.