Í gær var ung kona, Elínborg Harpa Önundardóttir, dæmd fyrir að hafa sparkað í lögreglumann og óhlýðnast fyrirmælum hans. Vettvangur brotsins var Alþingi þar sem konan hafði tekið sér stöðu og óskaði eftir áheyrn kjörinna fulltrúa um vanda flóttafólks. Refsing hennar er tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi. Þá ber henni að greiða sakarkostnað málsins, rúma milljón króna.

Elínborg er ekki sú eina sem hefur verið ákærð og dæmd fyrir brot gegn valdstjórninni í kjölfar mótmæla. Dæmin eru fjölmörg.

Refsivernd lögreglumanna var aukin 2007 og refsirammi fyrir brot gegn valdstjórninni hækkaður úr sex í átta ár að hámarki. Síðan þá hefur umburðarlyndi lögreglu gagnvart hvers kyns hótunum og ofbeldi gegn lögreglumönnum snarminnkað og málafjöldi í valdstjórnarbrotum aukist til muna.

Á hverju ári eru á bilinu 120 til 140 valdstjórnarbrot kærð til héraðssaksóknara. Fæst þeirra varða mótmælendur. Í flestum tilvikum er um að ræða ölvað fólk sem lögregla þarf að hafa afskipti af. Sum þeirra eru alvarleg, flest verða að teljast smávægileg.

Nýverið var maður ákærður fyrir að hóta lögreglumanni lífláti þar sem hann sat handjárnaður í aftursæti lögreglubifreiðar. Annar var ákærður fyrir ofbeldi gegn tveimur lögreglumönnum í fangaklefa á lögreglustöðinni við Hlemm. Lögreglumennirnir höfðu ákærða í tökum þegar hið meinta ofbeldisbrot var framið.

Ef staðreyndin er í raun og veru sú að lögreglumenn séu svo hætt komnir við störf sín að kæra þurfi hátt í þrjú ofbeldisbrot gegn þeim í hverri viku stöndum við frammi fyrir alvarlegum vanda. En sem betur fer enda ekki öll þessi mál í ákæruferli og menn geta velt fyrir sér hvort stundum sé verið að gera úlfalda úr mýflugum.

Í viðtali við Fréttablaðið fyrir nokkrum árum sagði Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari að of lítill greinarmunur væri gerður á alvarleika mála. Það mætti hífa refsingar upp fyrir alvarleg valdstjórnarbrot og láta vægari brotin falla niður. Hún sagði sáttamiðlun hafa gefist vel: „Þar komu ungir krakkar inn sem voru að stíga sín fyrstu skref út af sporinu og við erum að reyna að stoppa þá þróun,“ sagði Kolbrún.

Þetta er hins vegar sjaldgæft, því miður. Fólk er bara ákært og dæmt, jafnvel fyrir ekki þyngra brot en að hrækja á hlífðarvesti lögreglumanns. Er þetta skynsamleg leið til að bæta samskipti lögreglu við borgarana?

Fólk sem ver frítíma sínum í að krefjast betra samfélags, ekki aðeins fyrir sig sjálft, heldur einnig og mun oftar fyrir samborgara sína, er fólk sem er vel þess virði að ræða við í góðu tómi. Lögreglan hefur úrræði til að nálgast það á yfirvegaðri hátt en með ákæru.

Það sama er að segja af ungmennum sem lögreglan þarf að hafa afskipti af. Friðsamlegur sáttafundur hlýtur að gefa betri raun inn í framtíðina en einhliða og opinber yfirlýsing um að unglingurinn sé ofbeldismaður.

Hættum þessu rugli og sættumst á þau mál sem forsvaranlegt er að ljúka án dóms.