Mikki og Andrés

Sjálfstæðismenn margir hverjir eru í kasti yfir undirskriftasöfnuninni sem stendur nú yfir gegn þriðja orkupakkanum. Líkt og fram kemur í blaðinu í dag geta bæði Andrés Önd og Mikki Mús skrifað undir, það er síðan vandamál Valhallar að athuga hvort þeir kumpánar séu yfirleitt í flokknum. Síðan er það annað vandamál að þegar búið er að hringja í Disneyland og undirskriftirnar staðfestar þá verður líklegast búið að samþykkja þriðja orkupakkann og önnur mál komin á dagskrá.

Hinn listinn

Það er annar hress undirskriftalisti í gangi tengdur þriðja orkupakkanum. Þann lista á að afhenda forseta Íslands til að fá hann til að gera eitthvað í málinu. Á samfélagsmiðlum er fólk hvatt til að skrá sig, fjölskyldumeðlimi og vinnufélaga. Væntanlega að þeim forspurðum. Aðstandendur söfnunarinnar vilja ekki segja deili á sér en hafa sagt að „þau séu úr öllum flokkum“ og markmiðið sé að fá Íslendinga til að hafna áhrifum útlendinga. Lén söfnunarinnar er skráð á Borgundarhólmi, sem er í útlöndum. Þess má geta að Guðmundur Franklín Jónsson, íbúi á Borgundarhólmi og heimsfréttaritari Útvarps Sögu, hefur verið duglegur við að vekja athygli á söfnuninni á samfélagsmiðlum.