Árneshreppur og Borgarfjörður eystri eru lítil samfélög sem eiga undir högg að sækja. Þau eru um margt dæmigerð fyrir samfélög sem hafa verið tekin inn í verkefnið Brothættar byggðir sem Byggðastofnun hefur staðið fyrir undanfarin ár.

Í slíkum samfélögum eru oft svipuð vandamál, það er lítil endurnýjun meðal íbúa, erfitt er að halda uppi skólastarfi og verslunarrekstri. Á báðum stöðum hafa nýlega verið endurreistar verslanir, en það var gert kleift með styrk úr byggðaáætlun.

Verslanir skipta höfuðmáli í litlum samfélögum. Ekki aðeins til að gera íbúum auðveldara að nálgast aðföng, heldur verða verslanir oft á vissan hátt hjarta samfélagsins. Í Árneshreppi á Ströndum var nýlega endurreist verslun eftir að Kaupfélag Steingrímsfjarðar hafði lokað útibúi sínu þar. Stofnað var einkahlutafélag um reksturinn og urðu hluthafar alls 139, mun fleiri en íbúarnir í sveitarfélaginu. Einkum komu þar að brottfluttir íbúar úr Árneshreppi sem hafa sterkar taugar norður á Strandir og vilja samfélaginu allt hið besta. Félagið hlaut nafnið Verzlunarfjelag Árneshrepps og opnaði Sigurður Ingi Jóhannsson sveitarstjórnarráðherra verslunina með pompi og prakt 26. júní á síðasta ári. Aðstæður í Árneshreppi eru mjög sérstakar vegna erfiðleika í samgöngum yfir vetrartímann. Engu að síður var ákveðið að halda versluninni opinni allt árið um kring, þó vissulega sé styttur opnunartími yfir háveturinn.

Einstaklega vel hefur tekist til við endurreisn verslunarinnar. Vel var hugsað fyrir því hlutverki verslunarinnar að vera staður þar sem fólk gæti hist og spjallað. Útbúið var kaffihorn þar sem hægt er að tylla sér og Thomas verslunarmaður er óþreytandi við að bjóða upp á nýbakað brauð og kökur og sinna öllum óskum viðskiptavinanna.

Þannig hefur verslunin í Árneshreppi aukið lífsgæði íbúanna og fest sig í sessi sem miðpunktur sveitarfélagsins.

Á Borgarfirði eystri hafði verið samfelldur verslunarrekstur allt frá árinu 1918 svo ljóst var að mikil þjónustuskerðing var í vændum þegar matvöruverslun þorpsins lokaði dyrum sínum árið 2017. Frá Borgarfirði eystri eru 70 km í næsta þéttbýli, Egilsstaði, yfir fjallveg og um malarvegi að fara svo það er meira en að segja það að skjótast í búðina ef eitthvað vantar. Það er því ekki síst öryggisráðstöfun fólgin í því að verslun sé staðsett í byggðarlaginu. Í kjölfar íbúaþings sem markaði upphaf sveitarfélagsins í verkefninu Brothættum byggðum veturinn 2018, tóku nokkrir íbúar og velunnarar staðarins sig saman og hófu undirbúning stofnunar félags um verslunarrekstur í firðinum. Verslunin var opnuð svo um mitt sumar 2018 en þá höfðu rúmlega 70 manns fest sér hlut í versluninni. Óhætt er að segja að reksturinn hafi gengið vel og íbúar og ferðamenn sem heimsækja þennan magnaða stað hafa verið duglegir að nýta sér þá þjónustu sem verslunin veitir. Þar er jafnframt upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn sem eru fjölmargir ár hvert enda Borgarfjörður eystri og nágrenni einstök útivistar- og náttúruparadís.

Yfir vetrartímann, þegar um hægist, er verslunin einnig kærkominn staður til að hittast, fá sér kaffisopa og ræða heimsmálin við samferðafólkið og fá nýjustu fréttir úr bæjarlífinu.

Mikilvægi verslunar í þessum fámennu og tiltölulega afskekktu byggðarlögum verður ekki síst ljóst við þær aðstæður sem nú eru uppi. Íbúar sem mögulega hafa keyrt til stærri staða til að sækja aðföng veigra sér nú við ferðalögum sem eðlilegt er. Þá eru dæmi um það að íbúar í sóttkví hafi fengið vörur afgreiddar heim á tröppur og jafnvel að verslunarstjóri hafi komið og fært viðkomandi súkkulaði til að gera sóttkvína bærilegri. Þó svo að í þessari umfjöllun hafi einkum verið nefndar tvær verslanir til sögu á þetta við um fleiri brothætt byggðarlög og því hafa styrkir til verslunarreksturs m.a. í tengslum við potta byggðaáætlunar og frumkvæðisstyrki úr sjóði Brothættra byggða verið ómetanlegir fyrir íbúa byggðarlaganna, sérstaklega á síðustu misserum.

Opnunarhátíð Verzlunarfjelags Árneshrepps. Mynd/Kristján Þ. Halldórsson