Íslenska lífeyrissjóðakerfið er fyrirferðarmikið á innlendum fjármálamarkaði. Mikilvægi þess við öflun lífeyristekna eykst með hverju árinu sem líður og vægi almannatrygginga minnkar á sama tíma. Lífeyrissjóðirnir eru í raun fyrsta og mikilvægasta stoðin þegar litið er til greiðslu ellilífeyris og Íslendingar eru eina aðildarþjóð Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, þar sem meirihluti ellilífeyrisins er greiddur af lífeyrissjóðum en ekki af almannatryggingum hins opinbera. Lífeyrissjóðakerfið er stórt og að mestu fullfjármagnað. Það ætti að vera gleðiefni og tilefni jákvæðrar umfjöllunar.


Gagnrýnisraddir


Umræða um lífeyriskerfið hefur þrátt fyrir þetta almennt verið fremur neikvæð. Það er einkennilegt í ljósi þess að íslensku lífeyrissjóðirnir eru vel fjármagnaðir og með þeim stærstu í erlendum samanburði miðað við landsframleiðslu. Við gagnrýni á kerfið hefur verið fleygt fram ýmsum fullyrðingum sem standast ekki skoðun, meðal annars að lífeyrissjóðakerfið sé komið í þrot, að sjóðirnir hafi neikvæð áhrif á gengi krónunnar og að kostnaður kerfisins sé of hár. Talað er um „varðhunda“ kerfisins, að afnema beri tekjutengingar við almannatryggingar og fleira í þessum dúr. Lítið hefur hins vegar borið á raunhæfum tillögum og uppbyggilegri umræðu um hvernig endurbæta megi okkar öfluga kerfi sem auðvitað er ekki gallalaust, enda má lengi gott bæta.


Sjóðsöfnun eða gegnumstreymi


Hverri þjóð er nauðsyn að koma á fót öflugu lífeyriskerfi, hvort sem það er fjármagnað með sköttum til hins opinbera og/eða með sjóðsöfnun. Ekki verður komist hjá þessari fjármögnun og gjaldtakan, í formi iðgjalda eða skatta, verður að öllum líkindum sú sama hvor leiðin sem valin er. Með sköttum greiða launþegar á vinnumarkaði lífeyri til eftirlaunaþega á hverjum tíma og er slíkt kerfi oft nefnt gegnumstreymiskerfi. Með sjóðsöfnun sparar hver kynslóð til eftirlaunaáranna með sínum iðgjöldum til lífeyrissjóðanna. Þær þjóðir sem við berum okkur helst saman við vinna að því að auka vægi sjóðsöfnunar í fjármögnun framtíðarlífeyris og draga á sama tíma úr mikilvægi gegnumstreymis almannatrygginga. Í flestum löndum eru lífeyrissjóðir hugsaðir sem viðbót við gegnumstreymiskerfi hins opinbera og hafa umbætur snúið að því að auka vægi sjóðanna í lífeyristekjum. Þetta hefur verið gert með skattalegum hvötum til lífeyrissparnaðar og mótframlögum frá hinu opinbera. Á sama tíma hefur markvisst verið unnið að því að draga úr ábyrgð launagreiðenda á skuldbindingum lífeyrissjóða. Hvergi annars staðar en hér á landi hefur þó verið gripið til algjörrar skylduaðildar að lífeyrissjóðum.


Skylduaðild


Samkvæmt kjarasamningum er iðgjald til lífeyrissjóðanna komið í 15,5% hjá allflestum launþegum og er þá miðað við markmið um 72% lífeyrishlutfall[1], þó að lagaskylda kveði enn aðeins á um 56% hlutfall. Mörgum þykir þetta hátt iðgjald en það er í samræmi við áðurnefnt markmið sem sett hefur verið. Iðgjaldið hérlendis þykir ekki hátt ef miðað er við samanburðarlönd okkar og þar tekin saman iðgjöld til lífeyrissjóða og skattar vegna gegnumstreymis almannatrygginga. Sem dæmi má nefna að í Hollandi og Noregi fer stór hluti tekjuskattsins til fjármögnunar á gegnumstreymiskerfi hins opinbera[2] (e. pay as you go). Í slíkum kerfum er yfirleitt um réttindaávinnslu að ræða en þó með skerðingum gagnvart þeim tekjuhæstu.

Íslendingar eru eina aðildarþjóð Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, þar sem meirihluti ellilífeyrisins er greiddur af lífeyrissjóðum


Frá árinu 2004 hefur stærri hluti ellilífeyris komið frá lífeyrissjóðum en frá almannatryggingum hins opinbera og mun hlutdeild sjóðanna halda áfram að aukast á næstu árum. Vegna mikilvægis lífeyrissjóðanna og algjörrar skylduaðildar, sem að vissu leyti er hægt að líkja við opinbert kerfi, hefur íslenska lífeyrissjóðakerfið verið undanþegið tilskipun ESB um starfstengda lífeyrissjóði. Markmið tilskipunarinnar er að stuðla að lágmarkssamræmingu meðal starfstengdra lífeyrissjóða innan evrópska efnahagssvæðisins (EES). Miðað við samfélagslega stöðu og hlutverk lífeyrissjóðanna eru þeir að flestu leyti mikilvægasta stoð lífeyris hérlendis. Almannatryggingar hins opinbera hafa svo meðal annars það hlutverk að bæta stöðu þeirra sem ekki hafa náð að afla sér nægjanlegra réttinda innan lífeyrissjóðakerfisins og veita að einhverju leyti öryggisnet (e. social security). Samfélagslegt vægi íslenskra lífeyrissjóða er alltumlykjandi, einstakt í alþjóðlegum samanburði og ábyrgð þeirra því mikil.


Lokaorð


Ljóst er að lífeyrissjóðakerfið er á tímamótum um þessar mundir. Það er stórt, með mikla fjárfestingarþörf og samtímis mikilvægasta uppspretta lífeyristekna núverandi lífeyrisþega og næstu kynslóða. Nú hefur ríkisstjórnin boðað umbætur á lífeyriskerfinu í nánu samstarfi við hagsmunaaðila. Nauðsynlegt er að ná góðri samstöðu meðal hagsmunaaðila um framtíðarsýn og mikilvægt að forðast skammtímalausnir sem taka mið af núverandi aðstæðum í þjóðfélaginu.

Höfundur starfar í Seðlabanka Íslands við áhættugreiningu á lífeyrismarkaði. Skoðanir sem settar eru fram í greininni eru hans eigin og lýsa ekki endilega afstöðu Seðlabanka Íslands.

[1] Lífeyrishlutfall: Ellilífeyrir sem hlutfall af meðalævitekjum m.v. 40 ára starfsævi

[2] Iðgjald launþega til gegnumstreymiskerfis í Hollandi nema 18% af launum og 7,5% í Noregi (Folke­trygden). Iðgjöld vinnuveitenda til lífeyrissjóða í þessum löndum eru háð kjarasamningum og fleiri þáttum og geta numið allt frá 2-20%.