Frá árinu 1996 hefur bönkum og öðrum innlánsstofnunum verið óheimilt að bjóða upp á verðtryggingu á innlánsreikningum nema innstæðan sé bundin að lágmarki til þriggja ára.
Verðbólga herjar á landsmenn. Þeir sem vilja koma sparifé sínu í verðtryggt skjól hafa ekki mátt leggja það á verðtryggðan reikning nema féð sé læst inni í þrjú ár.
Þessi regla felur í sér höft á viðskipti og er til óþurftar. Reglan er ekki náttúrulögmál eins og ég benti á í grein á þessum stað í blaðinu 6. október sl. og hvatti til að hún yrði felld brott. Mun það hafa verið í fyrsta sinn um alllangan tíma sem hreyft var við þessu máli.
Seðlabankinn tilkynnti fyrr í þessum mánuði að reglan falli niður frá 1. júní.
Frá 1994 þurftu innstæður að vera bundnar í eitt ár til að njóta verðtryggingar. Í greinargerð með frumvarpi til vaxtalaga 1995 segir að ríkisstjórnin áformaði að vinna að því að draga úr verðtryggingu í áföngum. Var því Seðlabankanum falið að lengja lágmarkstíma verðtryggðra innstæðna og lána.
Þarna er rótin: Til að draga úr vægi verðtryggingar (sem er dulmál um staðfastan ásetning um að gera ekki neitt) fyrir tæpum þremur áratugum var binditími verðtryggðra innstæðna lengdur úr einu ári í þrjú ár.
Hefur þetta atriði leitt af sér minna vægi verðtryggingar? Telja má fullreynt eftir tæpa þrjá áratugi að svo er ekki.
Aukin vernd fyrir neytendur? Nei, þvert á móti. Heimilin hafa mátt bera verstu ágalla verðtryggingar en ekki fengið að njóta hagræðis af henni.
Bankarnir ættu að vera einfærir um að sjá um eigin áhættustýringu. Benedikt Gíslason bankastjóri Arion fagnar breytingunni í viðtali við Viðskiptablaðið.
Með því að fella brott þriggja ára regluna er því látið af óþörfum ríkisafskiptum af frjálsum skiptum fólks við viðskiptabanka sína.
Reglan er á valdi Seðlabanka Íslands að fengnu samþykki ráðherra. Hana mátti fella brott með einu pennastriki og sú hefur orðið raunin. Vel gert.