Sitjandi ríkisstjórn snýst um kyrrstöðu. Flokkarnir ráða sínum ráðuneytum. Vinstri grænir geta illa séð neitt annað en algeran ríkisrekstur í öllu sem snýr að heilbrigðisþjónustu og Sjálfstæðisflokkurinn leggur ofurkapp á varðstöðu um sérhagsmuni stórútgerðarinnar. Flokkarnir eru samhuga í að halda Íslandi utangátta í samstarfi evrópskra lýðræðisþjóða.

Framsóknarflokkurinn hefur náð góðum árangri á þessu kjörtímabili. Má þar nefna umbyltingu í málefnum barna og markvissa sókn í samgöngumálum. Framsóknarflokkurinn á meiri samleið með öðrum miðjuflokkum en jaðarflokkunum sem hann starfar nú með í ríkisstjórn.Sigurður Ingi Jóhannsson og fleiri Framsóknarmenn hafa í fjölmiðlaviðtölum bent á að miðjustjórn gæti verið heppilegur kostur eftir kosningar. Slíkt stjórnarsamstarf yrði um að rjúfa kyrrstöðu og afturhald – um sókn fram á við.

Sigurður Ingi hefur reynslu af því að leiða ríkisstjórn. Eftir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson neyddist til afsagnar 2016 kom það í hlut Sigurðar Inga að taka við stórlaskaðri ríkisstjórn og flokki og fórst honum það vel úr hendi.Sigurður Ingi er öfgalaus mannasættir, laginn í mannlegum samskiptum – maður sem leiðir fólk saman fremur en að sundra. Þetta eru mikilvægir kostir forsætisráðherra í lýðræðisríki.

Sem góðum Framsóknarmanni sæmir stendur Sigurður Ingi vörð um landbúnaðinn. Það kæmi ekki að sök í miðjustjórn þar sem sæmilegur friður ríkir um íslenskan landbúnað. Ólíklegt er að sjávarútvegsmál stæðu í vegi fyrir myndun miðjustjórnar undir forsæti Sigurðar Inga.Sigurður Ingi er lausnamiðaður maður. Hann er líklegur til að taka rökum varðandi vanda krónunnar og opinn fyrir möguleikum varðandi evrutengingu og frekara samstarf við ESB.

En, er möguleiki á að miðjuflokkar fái nægan þingstyrk til að mynda saman ríkisstjórn?Til að miðjustjórn geti orðið þyrftu Framsókn, Viðreisn og Samfylking að fá 27 þingmenn samanlagt. Með sex Pírötum nyti miðjustjórn stuðnings 33 þingmanna. Þetta yrði eins konar Reykjavíkurmynstur með Framsókn í stað Vinstri grænna. Skoðanakannanir benda til að slík niðurstaða sé raunhæfur möguleiki.