Stofnun miðhálendisþjóðgarðs myndi fylgja miklar breytingar sem hefðu áhrif á sveitarfélög og landsmenn alla um ókomna tíð. Í þjóðgörðum gilda sérstök lög og er því í raun um að ræða ríki í ríkinu. Lagaramminn er settur með frumvarpi um þjóðgarð en nánari útfærsla á regluverkinu ræðst af reglugerðum sem ráðherra setur eftir stofnun þjóðgarðsins og stjórnunar- og verndaráætlun sem stjórn þjóðgarðsins og ráðherra mun hafa úrslitavald um. Aðkoma sveitarfélaga og hagsmunaaðila er með fulltrúum í stjórn þjóðgarðsins en svæðisstjórnir starfa þar undir. Svæðisstjórnir leggja fram tillögur en úrslitavaldið er alltaf hjá formanni stjórnar garðsins sem skipaður er af ráðherra og ráðherra hvers tíma. Forstjóri garðsins er skipaður af ráðherra til fimm ára í senn. Markmiðið með stofnun garðsins er náttúruvernd ósnortinna víðerna innan miðhálendislínu Íslands. Tíðrætt hefur verið um stærð garðsins og að með stofnun hans myndi Ísland eignast stærsta þjóðgarð í Evrópu sem myndi laða að fleiri ferðamenn en jafnframt kalla á frekari uppbyggingu innviða.

Almannarétturinn afnuminn

En hvaða áhrif mun stofnun miðhálendisþjóðgarðs hafa á hinn íslenska ferðamann? Í lögum um náttúruvernd sem samþykkt voru árið 2015 er Almannarétturinn lögvarinn. Almannarétturinn var fyrst skilgreindur í Járnsíðu Magnúsar VI Noregskonungs á þrettándu öld og síðar í Jónsbók og hefur fylgt okkur allar götur síðan. Almannarétturinn tryggir rétt okkar til að ferðast um landið okkar og njóta þess með ýmsu móti en þó með þeim skilyrðum að valda ekki skemmdum á viðkvæmri náttúru. Með Almannarétti er okkur leyfilegt að ganga hvar sem er, tjalda til einnar nætur, týna ber, fjallagrös, sveppi o.fl., fara um vegi og slóða, meira að segja einkavegi og slóða nema þeir séu sérstaklega merktir, veiða og synda í vötnum svo eitthvað sé nefnt.

Þar sem í þjóðgörðum gilda sérstök lög víkja lög um náttúruvernd og Almannarétturinn þar með. Reglur um umgengni í þjóðgörðum eru settar af ráðherra með reglugerðum og í stjórnunar- og verndaráætlun sem stjórn garðsins mótar en ráðherra hefur úrslitavald um. Nær undantekningalaust lýtur Almannarétturinn í lægra haldi fyrir fjölmörgum takmörkunum á rétti fólks til umgengni við náttúruna, mismikið eftir ákvörðunum ráðherra hverju sinni. Víða í Vatnajökulsþjóðgarði má t.a.m. ekki ganga um nema á skipulögðum slóðum, ekki tjalda nema á skipulögðum tjaldsvæðum, fjallvegum og slóðum er lokað án samráðs við hagsmunaaðila og á afar hæpnum forsendum byggðum á huglægu mati stjórnar garðsins og ráðherra á náttúvuernd. Flygildi eru bönnuð nema sérstaklega hafi verið sótt um leyfi og sama gildir um flug svifdreka og fisvéla svo eitthvað sé nefnt. Þessar takmarkanir og fleiri munu líta dagsins ljós ef af stofnun miðhálendisþjóðgarðs verður og það í 85% af miðhálendi Íslands eða í vel yfir þriðjungi landsins alls.

Önnur lönd

Til fróðleiks má nefna að Svíþjóð er stolt af sínum Almannarétti (e. Freedom to roam) og óheftu aðgengi almennings að náttúrunni fyrir utan þjóðgarða sem eru 30 talsins en þeir þekja aðeins 1,6% af landinu. Í þeim er Almannarétturinn (e. Freedom to roam) takmarkaður með lögum um þjóðgarða. Alls er um 15% landsvæðis Svíþjóðar friðlýst með einhverju móti og eru þjóðgarðar þar meðtaldir. Samanborið við Ísland þá þekja þjóðgarðar nú 14,7% landsins og 26,05% landsins eru friðlýst með einhverjum hætti. Almannaréttur Svía er verndaður í stjórnarskrá en það hefur einnig komið til tals hér á landi.

Þörf fyrir náttúruvernd

En er ekki þörf á að vernda náttúruna fyrir öllu þessu ferðafólki sem þjóðgarðurinn mun draga að sér? Þú sérð líklega kaldhæðnina og mótsögnina í þessari setningu lesandi góður en mörgum þykir það skjóta skökku við að vilja vernda viðkvæma náttúru hálendisins en á sama tíma stuðla að auknum fjölda ferðamanna á svæðinu. Því myndi fylgja aukin miðstýring, takmarkanir allt árið um kring og umtalsverður kostnaður vegna óskilvirkrar og ólýðræðislegrar stjórnskipunar þar sem formaður stjórnar og forstjóri garðsins yrðu skipaðir af ráðherra en ekki kosnir af þjóðinni.

Í gildi eru lög um náttúruvernd og stofnun þjóðlenda var stórt og metnaðarfullt verkefni sem hefur sannað tilgang sinn. Öll útivistarfélög og samtök í ferðaþjónustu fylgja gildandi lögum og gott betur, stuðla að fræðslu og hvatningu til náttúruverndar á Íslandi með virkum hætti. Leiðsögumenn í ferðaþjónustu eru án efa ódýrustu landverðir sem Ísland gat eignast en innra aðhald og eftirlit í þeim hópi byggir á mikilli virðingu fyrir landinu og óspilltri náttúru. En gleymum því ekki að miðhálendið er ekki allt eins viðkvæmt og frumvarp um þjóðgarð lætur í veðri vaka og fullyrðingar og hræðsluáróður þjóðgarðssinna segir til um. Náttúra hálendisins er mjög fjölbreytt en stór hluti þess er örfoka sandar, melar, stórgrýti, jökulurð, jöklar, jökulár, klettar og fjöll sem liggja ekki beint undir skemmdum vegna umferðar manna. Á hálendinu eru vissulega ýmis viðkvæm svæði eins og hverasvæði með gróðri og ferskvanslindum og lækjum sem ástæða gæti þótt til að friðlýsa sérstaklega og er það vel hægt án þess að fórna Almannarétti Íslendinga fyrir í ríflega þriðjungi landsins. Frumvarp um miðhálendisþjóðgarð er sett fram af Vinstri grænum og unnið af umhverfisráðherra sem er fyrrverandi framkvæmdastjóri Landverndar sem hefur verið þekkt fyrir svokallaða svarta náttúruvernd þar sem öfgar ráða ferð. Gott dæmi um slíka öfga eru málsóknir Landverndar vegna lagfæringa á Kjalvegi til að hindra frekari akstur óbreyttra bifreiða framhjá drullupyttum í veginum. Miðhálendisþjóðgarður er öllu heldur besta dæmið um öfga svartrar náttúruverndar sem Landvernd stendur fyrir og Vinstri grænir styðja. Forsætisráðherra sagði aðspurður að helsta vandamálið á hálendinu væri utanvegaakstur og því þyrfti að stofna þjóðgarð. Í dag er akstur utan vega heimilaður í ýmsum tilgangi t.a.m. við leitir á haustin, við björgunarstörf, framkvæmdir o.fl. Mér er ekki kunnugt um skýrslu með faglegri greiningu á utanvegaakstri á hálendinu sem forsætisráðherra getur vísað í máli sínu til stuðnings. Utanvegaakstur hefur einnig fylgt óbreyttum bílaleigubílum þótt skuldinni hafi ítrekað verið skellt á íslenska ferðamenn á breyttum ökutækjum að ósekju. Í öllu fé eru svartir sauðir en með samstilltu átaki og fræðslu hefur t.a.m. Ferðaklúbbnum 4x4 tekist að lyfta grettistaki í viðhorfsbreytingu og vitundarvakningu þegar kemur að utanvegaakstri og náttúruvernd og gildir það um fleiri félagasamtök af sama meiði.

Aðgengi - Sjálfsvernd

Miðhálendi Íslands er þeim kostum gætt að það verndar sig að mestu sjálft með takmörkuðu aðgengi og þeim hættum sem þar leynast, ekki síst í nær óútreiknanlegu veðri sem gjarnan breytist með stuttum fyrirvara. Í raun má segja að umferð hins almenna ferðamanns um hálendið standi yfir í um tvo mánuði á ári yfir hásumarið. Yfir vetrartímann er hálendið að mestu þakið þykkum snjóalögum og flestir ferðast inn á hálendið á sérútbúnum ökutækjum á snjó eða í lofti því aðgengi er annars afar takmarkað sem á sama tíma verndar það fyrir almennum ágangi. Frumvarp um miðhálendiþjóðgarð virðist gagngert miða að því að hygla tilteknum hópi ferðalanga á kostnað vélknúinnar umferðar eins og sjá má á eftirfarandi tilvitnun úr frumvarpinu þar sem fjallað er sérstaklega um umgengni:

“Það er samofið íslenskri menningu og hluti af sjálfsmynd þjóðarinnar að náttúra landsins sé undirstaða útivistar og hennar sé notið á heilbrigðan og sjálfbæran hátt, hvort sem er í atvinnuskyni eða til upplifunar og ánægju. Hestaferðir á fornum reiðleiðum, gönguferðir um óbyggðir, smölun, sportveiði, skíðaiðkun, náttúruhlaup og hjólreiðar eru dæmi um ólík form nýtingar almannaréttarins og útivistar sem vel getur stutt við markmið þjóðgarðsins ef rétt er að málum staðið.“.

Frumvarpið skilur einnig eftir meiri óvissu en vissu fyrir alla með óljósu og almennu orðalagi eins og “…ef rétt er að málum staðið.”.

Rekstrarkostnaður

Ekki hefur verið lögð fram rekstraráætlun fyrir fyrirhugaðan miðhálendisþjóðgarð en kostnaðartölur sem lagðar hafa verið fram af umhverfisráðherra eru á bilinu 1-3 milljarðar á ári. Leiða má líkum að því að sú tali hækki umtalsvert ef horft er til fyrri reynslu í þeim efnum, t.a.m. úr Vatnajökulsþjóðgarði. Reynsla af Vatnajökulsjþjóðgarði hefur verið tíðrædd í þessu samhengi en svört skýrsla um rekstur hans sem kom út árið 2018 sem sýndi framá mikla fjármálaóreiðu og trúnaðarbrest. Farið var 50% fram úr fjárheimildum og mestu munaði um launakostnað. Aðgerðir sem farið var í til sparnaðar höfðu hins vegar þveröfug áhrif og juku kostnað þjóðgarðsins. Á þeim forsendum að rekstraráætlun fyrir nýjan þjóðgarð sé ekki til staðar og fyrri reynslu af rekstri Vatnajökulsþjóðgarðs má gera því skóna að rekstrarkostnaður stækkaðs þjóðgarðs verði mun hærri en ráðherra telur og setur fram á mjög óformlegan hátt.

Fjöldi fulltrúa í stjórn og umdæmisráðum í stjórnsýslu nýs þjóðgarðs yrði sem hér segir: forstjóri 1, stjórn þjóðgarðs 11, umdæmisráð 6x9 = 54 (hið minnsta) eða samtals 66. Þá eru ekki taldar til stöður landvarða og skrifstofufólks.

Rekstur Vatnajökulsþjóðgarðs er með þeim hætti í dag að lagt var til s.l. vetur að opna ekki salernisaðstöðu við Lakagíga og víðar í sumar nema að hluta til vegna fjárskorts. Maður myndi ætla að salernisaðstaða sé ein af grunnþjónustum innan þjóðgarða en ef ekki er hægt að halda þeim opnum vegna annars rekstrarkostnaðar er illt í efni.

Virkjanaframkvæmdir

Þjóðgarðssinnum er tíðrætt um virkjanir á hálendinu og að þjóðgarður verndi það gegn þeim. Það er ljóst að yfirlýstir virkjanakostir á landinu eru margir og er hálendið þar ekki undanskilið. Í þriðja áfanga rammaáætlunar er Skrokkölduvirkjun (Eyrarrósarvirkjun) í nýtingarflokki og Hágöngulónsvirkjun með allt að 20 borholur í fyrsta fasa í biðflokki. Báðar þessar virkjanir yrðu áfram uppi á borðinu þrátt fyrir stofnun miðhálendisþjóðgarðs. Ég held að flestir geti verið sammála því að þyrma eigi miðhálendinu fyrir frekari stórframkvæmdum nema brýna nauðsyn beri til.

Hrossakaup

Miðhálendisþjóðgarður er skilgreindur í stjórnarsáttmála VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og í því samhengi hefur verið talað um hrossakaup. Sjálfstæðisflokkurinn fær sínar virkjanir og Vinstri grænir fá miðhálendið eða ríflega þriðjung landsins undir sína ólýðræðislegu stjórn. Því hefur einnig verið fleygt fram að Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis sé bendlaður við forstjórastól hins fyrirhugaða þjóðgarðs og kæmi það ekki á óvart í ljósi orðræðu hans um málið úr ræðustóli Alþingis. Orkufyrirtæki sem tengjast Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra fjölskylduböndum róa öllum árum að einkavæðingu virkjanakosta um land allt í samstarfi við erlendan orkurisa. Deilt var um Orkupakka 3 á sínum tíma en það þykir nokkuð ljóst að umræddum aðilum hugnast að selja græna íslenska orku til Evrópu um sæstreng.

Niðurlag

Hér hefur ekki gefist færi á að ræða alla þá þætti sem gagnrýndir hafa verið við frumvarp um miðhálendisþjóðgarð. Það er ljóst að miklir hagsmunir eru í húfi fyrir ýmsa aðila, þar með talið íslenskan almenning. Stofnun miðhálendisþjóðgarðs er gríðarlega stórt mál þar sem svo stór hluti landsins liggur undir í einni viðamestu tilraun til breytinga á stjórnskipulagi á þriðjung landsins. Auk ólýðræðislegrar stjórnar sem ekki yrði kosin af þjóðinni myndi þjóðgarður afnema Almannaréttinn á því svæði um ókomna tíð því að öllum líkindum yrði um óafturkræfa aðgerð að ræða. Almannarétturinn er stór hluti af sjálfstæði Íslendinga og í raun ein helsta forsenda sterkrar tengingar okkar við landið okkar og náttúruna. Framtíðarkynslóðir munu ekki verða sömu gæfu aðnjótandi að upplifa náttúru Íslands á frjálsan og óheftan hátt ef af miðhálendisþjóðgarði verður. Slík upplifun og aðgengi er í raun bakgrunnurinn að uppbyggingu íslensks afreksfólks í útivist. Eins má segja að það hafi verið mikilvæg forsenda uppbyggingar björgunarsveita um land allt enda mikið útivistarfólk þar á ferð. Það má í raun segja að ónauðsynlega sé verið að markaðs- og stofnanavæða hálendi Íslands með miklum tilkostnaði fyrir þjóðina og tilheyrandi hættu á gerilsneyðingu á náttúruupplifun og takmörkuðu aðgengi framtíðarkynslóða.

Höfundur er eigandi ferðaskrifstofunnar Iceland Luxury Tours og situr í stjórn FETAR landssamtaka ferðaþjónustufyrirtækja í heilsársþjónustu.