Það eru breyttir tímar og fyrir mið­aldra mann er erfitt að átta sig á sí­breyti­legu lands­lagi. Tölvur hafa leyst hefð­bundna af­þreyingu af hólmi og sam­fé­lags­miðlar komið í stað per­sónu­legra sam­skipta. Börn eru hætt að leika sér og horfa þess í stað á YouTu­be-mynd­bönd af öðrum leika sér. Mín eigin börn eru meira að segja farin að nota tölvuna til þess að horfa á mynd­bönd af öðrum leika sér – í tölvunni! Ég skil ekkert.

Önnur hver manneskja er nú kölluð sam­fé­lags­miðla­stjarna og sí­fellt fleiri teljast á­hrifa­valdar, hvað svo sem það nú þýðir. Á hverja hefur þetta fólk eigin­lega á­hrif og hvers konar á­hrif hefur það? Á­hrifa­valdarnir, sem flestir unnu í gena­lottóinu, sýna sjálfa sig á til­gangs­litlum ljós­myndum með meitlaða og undar­lega þjáningar­svipi, í frá­leitum stellingum sem ekki er hægt að koma sér í án utan­að­komandi að­stoðar – sem út­skýrir kannski svipinn á þeim, þegar ég pæli í því. Mér verður oft hugsað til fólksins sem þarf að taka ljós­myndirnar – það eru hinir bók­staf­legu „fylgj­endur“. Guð, hvað ég vor­kenni þeim. Mikið hlýtur þeim að líða kjána­lega þegar þeir hlaupa á eftir á­hrifa­valdi sínum tímunum saman, sem hand­stýrir þeim svo skerpan, lýsingin og sjónar­hornið nái að fanga bak­hluta á­hrifa­valdsins með hár­réttum hætti. Bos­sa­myndir virðast á­hrifa­meiri en aðrar.

En ef­laust er þýðingar­laust að klóra sér í hausnum yfir þessu öllu eða pirra sig. Þessar nýju at­vinnu­greinar eru komnar til að vera og verða senni­lega lög­verndaðar þegar fram líða stundir. Þangað til ætla ég að hafa á­hyggjur af því hvaða stutt­erma­bol ég vel fyrir bólu­setningar­sjálfuna. Sú verður lækuð.