Hefðbundin hjónavígsla hefst á lítilli valdasenu. Hann stendur uppi við altarið við hlið prests og svaramanns. Hún er leidd inn af eldri karli, háð líkt og barn. Allt sem okkur finnst um efnisheiminn á við um konuna í menningunni. Að því leyti sem heimurinn er hráefni handa manninum þá er konan það líka. Að því leyti sem þarf að hemja náttúruna skal jafnframt hemja konuna. Að því marki sem verjast þarf náttúrunni með aflsmunum, ryðja henni til eða bora hana í gegn og virkja – að sama skapi er konan meðhöndluð og virkjuð. Að því leyti sem við fögnum lífinu, elskum það dýrkum og dáum mun konum sem það eru taldar verðskulda fagnað með ást og aðdáun. Ekkert er nýtt undir sólu. Þegar fornleifafræðingar koma niður á skrautmuni vita menn að hér hafi fólk haft það býsna gott. Kvenlíkaminn miðlar heimsmynd og sjálfsskilningi hvers samfélags með hreyfingum sínum, klæðaburði og skrauti. Kjör konunnar tjá þau kjör sem við karlar reiknum okkur. Þannig hefur það verið um aldir og þannig er það víðast enn.

En nú er allt að breytast. Allt í einu erum við hætt að upplifa okkur sem eigendur og herra jarðar. Við sjáum ekki efnisheiminn sem hráefni heldur lítum á okkur sem þátttakendur í vistkerfi. Hér hjálpar COVID en hlýnun jarðar er höfuðástæðan. Við getum ekki lengur horft fram hjá náttúrulegu samhengi okkar. Og viti menn. Konur rísa á fætur og segja: Við nennum þessu ekki! Við nennum ekki lengur að vera eign og hráefni karla. Við nennum ekki að láta meiða okkur í kynlífi. Okkur langar til að vera jafningjar og vinir af öllum kynjum. Og karlmenn ansa: Okkur leiðist líka. Eigum við ekki að æfa okkur saman í því að elska án þess að meiða?