Aflið var stofnað á Akureyri árið 2002 sem samstarfsverkefni Stígamóta og Jafnréttisstofu. Í upphafi störfuðu sjö sjálfboðaliðar sem ráðgjafar hjá Aflinu. Allt frá stofnun hefur Aflið boðið þolendum upp á einstaklingsviðtöl og sjálfshjálparhópa. Einstaklingsviðtölum hefur fjölgað jafnt og þétt frá upphafi og hefur starfsemin margfaldast á undanförnum árum. 

Árið 2017 var metár bæði hvað varðar fjölda viðtala og fjölda nýrra skjólstæðinga. Orsakir þessarar stöðugu fjölgunar má eflaust rekja til aukinnar umræðu og meðvitundar í samfélaginu sem ekki síst má þakka ýmsum #átökum á samskiptamiðlum eins og #Skilumskömminni og #Metoo. Það er nauðsynlegt fyrir þolendur að vita að þeir eru ekki einir og að afleiðingar ofbeldisins sem þeir eru að takast á við séu ekki óeðlilegar, heldur einmitt sammannlegar tilfinningar sem þeir deila með öðrum þolendum.

Hugmyndafræði Aflsins hefur frá upphafi byggt á því að mæta þolendum á jafningjagrundvelli þeim að kostnaðarlausu. Það getur reynst mörgum þung og erfið skref að leita sér hjálpar eftir að hafa orðið fyrir ofbeldi og einn af mikilvægustu þáttunum í ráðgjafavinnunni er að taka ávallt mark á reynslu og upplifun þeirra sem beitt hafa verið ofbeldi, sýna þeim virðingu og mæta þeim á þeim stað sem þau eru hverju sinni. 

Ráðgjafavinnan felst í því að hjálpa einstaklingum að sjá eigin styrkleika og læra að nota þá til að bæta eigið líf. Unnið er út frá því að hver og einn sé sjálfur sérfræðingurinn í eigin lífi og geti best stjórnað því hvenær og hvernig unnið er úr afleiðingum ofbeldisins.  Þolendur mæta skilningi frá ráðgjöfum sem sjálfir hafa upplifað áföll og unnið úr þeim og miðla þeirri reynslu til sjólstæðinga sinna með samkennd og skilning að leiðarljósi. Ábyrgðin á ofbeldinu liggur alfarið hjá geranda, en enginn getur unnið úr því nema þolandinn sjálfur og þá er nauðsynlegt að geta leitað í reynslu annarra sem gengið hafa í gegnum sambærileg áföll.

Afleiðingar ofbeldis og áfalla geta verið margvíslegar, bæði andlegar og líkamlegar, og því fyrr sem þolendur takast á við þær og vinna sig í gegnum áföllin, því betra. Aflið tók á móti 122 nýjum skjólstæðingum árið 2017, af þeim var þriðjungur með örorku sem í flestum tilfellum má leiða líkur að að séu afleiðingar þess ofbeldis sem þeir hafa verið beittir. Það er því til mikils að vinna fyrir samfélagið að útrýma ofbeldi og takast á við alfeiðingar þess sem fyrst svo þolendur geti átt og notið eðlilegs lífs í leik og starfi.

Síðustu misseri hafa ráðgjafar Aflsins greint breytingu hjá þeim skjólstæðingum sem til okkar leita og er greinilegt að umræðan í samfélaginu og sá mikli kraftur sem braust út með #Metoo byltingunni hefur skilað sér út í samfélagið á margan hátt. 

Aukin umræða og #átök á samfélagsmiðlum hafa skilað sér í Því að ungt fólk leitar sér fyrr aðstoðar eftir að hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi og er betur meðvitað um að skömmin sé ekki þeirra. Afleiðingarnar eru þrátt fyrir það jafn alvarlegar og nauðsynlegt að unnið sé með þær og því er gríðarlega mikilvægt að þolendur hafi úr fjölbreyttum verkfærum að velja til að takast á þessar afleiðingar. 

Þjónusta Aflsins er nauðsynlegt verkfæri í þeirri verkfærakistu. Hafir þú orðið fyrir ofbeldi og teljir að ráðgjöf hjá Aflinu gæti gagnast þér þá er hægt að hafa samband í gegnum Facebooksíðu samtakanna eða með tölvupósti á aflid@aflidak.is.

Hjalti Ómar Ágústsson, verkefnastjóri

Sigurbjörg Harðardóttir, ráðgjafi