Undanfarin vika hefur um margt verið sérkennileg. Margt var jákvætt – en eitt mál yfirskyggði þó önnur.

Um síðustu helgi tók að bera á því á samfélagsmiðlum að þá ónafngreindur einstaklingur var borinn sökum um ofbeldisverk. Meðal annars beindust spjótin í þeim færslum að fjölmiðlum og var ákaft spurt hvers vegna þeir þögðu. Var í því sambandi vísað til ábyrgðar þeirra og þöggun nefnd í því samhengi.

Óhætt er að fullyrða að flestir fjölmiðlar leituðu á sunnudag og mánudag eftir einhverri fótfestu í þessum söguburði, en án árangurs. Enginn var reiðubúinn til að segja neitt og rökrétta ályktunin því sú að enginn vissi neitt.

Fjölmiðlar elta ekki söguburð og birta nema hafa fyrir því vissu að sagan eigi við rök að styðjast og traustar heimildir séu fyrir fréttinni. Svo var ekki þá. Áfram logaði netið og hávaðinn jókst. Þar kom að sá sem böndin höfðu borist að nýtti eigin fjölmiðil til að taka viðtal við sig sjálfan með aðstoð lögmanns síns. Er sú framganga öll með miklum ólíkindum, ekki síst lögmannsins. Og sumir grétu með.

Í siðareglum lögmannafélagsins segir í II. kafla að lögmanni beri að forðast að samkenna sig skjólstæðingi sínum. Þeir sem horfðu geta sjálfir dæmt um hvort lögmaðurinn gætti þessa.

Fréttablaðið birti svo á miðvikudagskvöld frétt um yfirlýsingu sem lögmaður tveggja kvenna sendi blaðinu og sagði sögu þeirra. Í ljósi þeirra sagna eltust ummæli og myndskeið margra illa. Vonandi verður hið sanna í málinu leitt fljótt í ljós.

Í Fréttablaðinu í gær var athyglisvert viðtal við Ingólf Gíslason, prófessor í félagsfræði. Hann segir það ekki óalgengt að umræða sem þessi skapist þegar slík mál koma upp, ekki síst þegar þekktir einstaklingar eigi í hlut.

„Það er mjög sérstök þörf að vilja taka afstöðu til einhvers sem maður veit ekkert um og oft verður til í samfélaginu gífurleg hystería í svona aðstæðum,“ segir Ingólfur og vísar til Lúkasar-málsins víðfræga. „Þarna er fólk bara að gefa frá sér gagnrýna hugsun.“

#MeToo var tímabær bylting þar sem konur risu upp gegn hvers kyns kynbundnu ofbeldi, oftast af hendi karla, og sögðu frá.

Ingólfur segir rannsóknir benda til þess að eftir #MeToo séu konur líklegri til að segja frá verði þær fyrir ofbeldi. „Það er óskaplega bjartsýnt að reikna með því að svona bylting losi okkur við þetta en dropinn holar steininn,“ segir hann.

„Konur segja frekar frá, þær sætta sig síður við og eru ólíklegri til að festast í ofbeldissambandi. Breytingin hvílir í því að allar þessar hreyfingar hafa hvatt konur til að tala og segja frá, og sjá að þær séu ekki einar,“ bætir Ingólfur við.

Ofbeldi er samfélagsmein í hvaða mynd sem er. Liður í að uppræta það er að þeir sem því beita axli ábyrgð og þeir segi frá sem fyrir því verða.

#Metoo – 2 verður vonandi til þess.