Fyrir nokkrum árum heilsaði mér ágæt kona við kirkjudyr og mælti: Mikið er ég glöð að eiga eftir að láta ferma eitt af börnunum mínum, þá hef ég afsökun fyrir að koma í messu. Stundum hef ég heyrt fólk segja: Ég vildi gjarnan koma oftar í kirkjuna, en þá færi fólk að halda að ég sé að fást við erfiðleika. Þessi afstaða hefur orðið mér umhugsunarefni. Í Covid þurftum við sem þjónum kirkjunni að koma fréttum, helgihaldi og fræðslu út eftir alveg nýjum leiðum með beinu streymi, YouTube -myndböndum og á fésbókinni.

Í Vídalínskirkju í Garðabæ sendum við út mikið efni síðustu fjórtán mánuði bæði fyrir börn og fullorðna og héldum í raun úti fullu helgihaldi á hverjum sunnudegi í vetur, en afar oft eingöngu á netinu. Þegar rýnt er í áhorfstölur kemur í ljós að segja má að fimmtíu manns hafi tekið þátt í helgihaldi í gegnum netið í 45 mínútur annan hvern dag frá áramótum.

Ég segi stundum við fermingarbörnin að kirkjan sé ekki stærsti skemmtistaður í heimi enda hafi starf kirkjunnar þann tilgang að miðla merkingu en ekki að hossa fólki. Þrátt fyrir að við höfum séð kirkjusókn aukast gríðarlega með netinu þá breytir það því ekki að tilbeiðslan er best í mannlegri nánd og kirkjan heldur áfram að vera mannslífstorg þar sem ókunnugt fólk finnur samstöðu. Þess vegna ætla söfnuðir Hafnarfjarðar og Garðabæjar að hafa magnaða sumarkirkju á komandi sumri í Garðakirkju á Garðaholtinu þar sem bæði börn og fullorðnir fá að njóta fegurðar, samfélags og tilbeiðslu. Ég hvet fólk til að fylgjast með fésbókarsíðunni Sumarmessur í Garðakirkju. Þeim samverum verður auk þess líka streymt til þeirra sem ekki eiga heimangengt. Covid hefur kennt okkur nýja strauma, að streyma. n