Titill þessarar greinar er svar 13 ára stelpu við spurningu minni „hvað finnst þér skemmtilegast að gera í lífinu?“. Hún bjó fyrstu 11 ár ævi sinnar við heimilisofbeldi. Ég hitti hana þegar hún hafði búið á friðsamlegu heimili með móður sinni og bróður um einhvern tíma. Áður var heimili staður þar sem henni leið ekki vel. Eftir skóla fór hún heim og flýtti sér alltaf inn í herbergi sitt, lokaði að sér og var þar fram á kvöld. Það var pabbi hennar sem gerði heimilið óöruggt og óhugnanlegt. En 13 ára stelpan óskar þess samt mjög heitt í dag að pabbi sinn leiti sér hjálpar og finni sína hamingju.

Tilefni þess að ég ræddi við hana var gerð myndbanda fyrir vitundarvakningu Jafnréttisstofu um heimilisofbeldi sem ber heitið Þú átt VON. Þar er dregin fram reynsla þolenda og gerenda af því að komast út úr ofbeldisaðstæðum með stuðningi fagfólks og sýnd sú fjölbreytta þjónusta sem stendur fólki til boða.

Mörg hundruð fjölskyldur á Íslandi verða fyrir alvarlegum og varanlegum skaða af heimilisofbeldi á hverju ári. Til að varpa ljósi á stöðuna dreg ég hér fram nokkrar staðreyndir. Árið 2017 bárust lögreglu 890 tilkynningar um heimilisofbeldi, 251 einstaklingur dvaldi í Kvennaathvarfinu, þ.e. 103 börn  og 148 konur, og samtals tæp 2000 fullorðnir þolendur leituðu sér aðstoðar hjá Bjarkarhlíð, Kvennaathvarfi og Aflinu. Af þunguðum einstaklingum hefur einn af hverjum fimm upplifað heimilisofbeldi. Það gera 900 konur á ári. Á höfuðborgarsvæðinu eru börn tengd heimilum í þriðja hvert skipti sem lögregla er kölluð á vettvang vegna heimilisofbeldis.

Þolendur heimilisofbeldis hafa kennt okkur að ofbeldi vex og dafnar í þögninni. Rannsóknir og reynsla sýnir að börn sem búa við heimilisofbeldi gera sér grein fyrir alvarleika þess og áhrif heimilisofbeldis á börn eru mikil og varanleg – hvort sem þau verða fyrir beinu ofbeldi eða ekki. Því er mikilvægt að lyfta skömminni af ofbeldinu og tala um það. Á bak við hvert ofbeldisatvik eru ofbeldismenn sem geta leitað sér hjálpar við sínum vanda hjá  Heimilisfriði. Þeir eru þess valdandi að börnin þeirra óttast þá og líta ekki á heimili sitt sem þann örugga stað sem heimili eiga að vera.

Sú 13 ára vissi ekki að hún gæti losnað við reiðina, heiftina og þyngslin sem einkenndu líf hennar á meðan hún bjó við ofbeldi. Í dag er hún glöð og nýtur sín í lífinu. Hún fékk nýverið viðurkenningu í smásagnasamkeppni, hún nýtur sín í ört stækkandi vinahópi og já, hún blómstrar. Við sem samfélag þurfum að veita fleiri börnum sem búa við ofbeldi sama frelsið sem hún hefur öðlast.

Ef þú ert eða telur þig eða aðra manneskju vera í hættu vegna heimilisofbeldis þá hringir þú í 112 og færð viðeigandi ráðgjöf og aðstoð. Þar er tekið vel á móti öllum símtölum, hvort sem neyðin er brýn eða aðstæðurnar einfaldlega ógnandi. Þau úrræði sem henta best hverju tilfelli eru samstundis virkjuð.

Leiðin út úr ofbeldi er ekki einföld en það eru bjargir víða. Fyrsta skrefið er erfitt en til að finna úrræði við hæfi höfum við hjá Jafnréttisstofu sett upp síðu til að auðvelda þolendum og gerendum leiðina út. Frekari upplýsingar má finna á jafnretti.is/von.