Þar kom að því að ríkisstjórnin stigi fram og kynnti aðgerðir sínar til að styðja við efnahagslífið í þessum dæmafáu aðstæðum sem nú ríkja. Þær eru í tíu liðum sem sumir eru líklegir til að koma að einhverju gagni, þó einstaka geti reynst seinvirkir.

Fram undan er krappur dans í rekstri fyrirtækja. Víða hafa tekjurnar þurrkast upp, en gjöldin ekki. Þegar líður að mánaðamótum hrannast upp gjalddagarnir, laun, húsaleiga, greiðslur fyrir aðföng og aðkeypta þjónustu. Ekki þarf að útlista að keðjuverkun hefst fljótt ef greiðslufall verður meðal fyrirtækja.

Því þarf að bregðast hratt við áður en allt hleypur í harðan hnút. Nokkrum aðgerðum ríkisstjórnarinnar er beint að þessari stöðu. Frestur á skilum staðgreiðslu sem fyrirtækin halda eftir af launum starfsmanna og frestur á greiðslu tryggingagjalds eru dæmi um það. Ekki virðast hugmyndir sem voru á sveimi fyrir helgina, um frest skila á innheimtum virðisaukaskatti, hafa fengið hljómgrunn, sem hefði í þessari stöðu verið til mikilla bóta. Það mun reynast mörgum fyrirtækjum í fjölda atvinnugreina erfitt að greiða laun um næstu mánaðamót. Hlutabætur, þar sem starfshlutfall er fært niður, kemur þar ekki að gagni, þar sem fólk á kröfu á launum fyrir þegar veitt vinnuframlag. Um nýtt starfshlutfall gildir annað, en gildir þá fyrir aprílmánuð trúlega. Það er því aðsteðjandi bráðavandi.

Stjórnvöld munu deila áhættu af lánveitingum viðskiptabankanna til fyrirtækja til hálfs á móti bönkunum. Eiginfjárkröfur til banka hafa einnig verið lækkaðar svo þeir geti aukið lán til heimila og lífvænlegra fyrirtækja.

Skilyrðið er að fyrirtækin séu í lífvænlegum rekstri og það mat verður í höndum viðskiptabanka þeirra. Til að ákvarða það svo vit sé í þarf því að fara fram nákvæm skoðun á rekstri, efnahag og áætlunum fyrirtækjanna. Við blasir að það er risavaxið verkefni sem ekki er beinlínis hlaupið að. Aðeins stærstu fyrirtæki hafa til dæmis lokið uppgjörsvinnu vegna síðasta árs. Þá eru rekstraráætlanir þeirra flestra í algeru uppnámi eftir að aðstæður allar hafa gerbreyst eins og hendi sé veifað og enginn veit hvenær tekjurnar vaxa á ný. Innan fyrirtækjanna þarf því að setja allt á annan endann við að ljúka þessari uppgjörsvinnu og endurskoðun áætlana samhliða. Þetta þarf að gera um leið og glímt er við miklar áskoranir við daglegan rekstur.

Þegar allt þetta talnaefni er tilbúið þarf svo viðskiptabankinn að leggja mat á raunhæfi áætlananna, meta styrk efnahags og mynda sér skoðun á rekstri fyrirtækjanna til frambúðar. Þetta allt getur reynst seinlegt og tímafrekara en virðist, fljótt á litið. Engan tíma má þó missa því klukkan gengur miskunnarlaust.

Mikilvægast af þessu öllu er að við úrlausnina verði gætt jafnræðis þannig að sama lausn sé boðin fyrirtækjum í sambærilegri stöðu.

Það er því langur vegur frá því að menn geti varpað öndinni léttar, þó öll él stytti upp um síðir.

Meðölin verða að virka og mega ekki vera skaðlegri en meinið sem þau eru gefin við.