BHM hefur lengi barist fyrir breytingum á námslánakerfinu. Ríkisvaldið á að styðja myndarlega við bakið á þeim sem ákveða að leggja stund á háskólanám enda er það fjárfesting sem skilar sér margfalt til baka í formi hagsældar og bættra lífsgæða almennt í samfélaginu. Um leið á stuðningskerfið að stuðla að jöfnum tækifærum til menntunar, óháð efnahag, kyni, fjölskylduaðstæðum og samfélagsstöðu að öðru leyti. BHM styður hugmyndir um blandað kerfi lána og styrkja, líkt og tíðkast annars staðar á Norðurlöndum, svo fremi sem jafnrétti til náms verði tryggt.

Nýlega lagði mennta- og menningarmálaráðherra fram frumvarp á Alþingi um Menntasjóð námsmanna. Verði það að lögum mun það hafa í för með sér víðtækar breytingar á fjárhagslegum stuðningi ríkisins við námsmenn. Frumvarpið gerir ráð fyrir að tekið verði upp blandað kerfi lána og styrkja, meðal annars að norskri fyrirmynd. Fram kemur í frumvarpinu að markmiðið með nýju kerfi sé að tryggja hagsmuni námsmanna á Íslandi betur en gert hefur verið.

BHM fagnar frumvarpinu og telur að þær breytingar sem þar er mælt fyrir um séu almennt jákvæðar og til bóta miðað við núverandi kerfi. Aftur á móti telur bandalagið að stjórnvöld eigi að hafa metnað til að styðja enn betur við bakið á námsmönnum en gert verður samkvæmt frumvarpinu. Í því sambandi má til dæmis benda á að frumvarpið felur í sér að veittur verður 30% afsláttur af höfuðstól námsláns ef námsmaður lýkur námi innan ákveðinna tímamarka. Í Noregi er sambærilegt hlutfall 40%. Einnig má nefna að samkvæmt frumvarpinu munu námsmenn með börn á sínu framfæri bæði geta fengið styrk og lán vegna þeirra. BHM telur að stuðningur ríkisins vegna barna námsmanna eigi alfarið að vera í formi styrks.

Vaxtaþak er nauðsynlegt

Samkvæmt frumvarpinu verða vextir á námslánum breytilegir. Nauðsynlegt er að sett verði þak á vextina til að fyrirbyggja að námsmenn verði látnir bera kostnaðinn af mögulegum efnahagsáföllum í framtíðinni. Þá telur BHM að tryggja þurfi að lántakar þurfi ekki að greiða af námslánum eftir að starfsævinni lýkur en þetta er ekki tryggt í frumvarpinu. Samkvæmt því verða námslán ótímabundin og fyrnast ekki, líkt og í núverandi kerfi. Við viljum að eftirstöðvar námsláns falli niður þegar lífeyristökualdri er náð eða þegar greitt hefur verið af láni í 40 ár.