Á hverjum degi er fjöldinn allur af störfum aug­lýstur laus til um­sóknar á þeim ótal mörgu at­vinnu­leitar­miðlum sem til eru. Störfin eru mis­munandi eins og þau eru mörg og gera þar af leiðandi mis­munandi kröfur til væntan­legra um­sækj­enda. Eitt hefur þó á undan­förnum árum byrjað að ein­kenna at­vinnu­aug­lýsingar í auknum mæli. Krafa um há­skóla­menntun sem nýtist í starfi og lág­marks­aldur. Er það, að því er virðist í mörgum til­fellum, al­gjör­lega óháð því hvort störfin krefjist raun­veru­lega há­skóla­menntunar eða lág­marks­aldurs. Þegar staðan er eins og hér er lýst, er ekki laust við að menn spyrji sig hvað veldur? Svarið blasir við og er aldurs­for­dómar og mennta­hroki, sem ein­kenna ekki bara ís­lenskan vinnu­markað, heldur líka ís­lenskt sam­fé­lag.

Eðli­lega er þó nokkur fjöldi starfs­greina sem hefur lög­verndaðan starfs­titil, og er það í flestum til­fellum nauð­syn­legt enda um afar sér­hæfð störf að ræða. Má þar til dæmis nefna lífeinda­fræðinga, verk­fræðinga, lækna og sál­fræðinga. En það er mér þó al­farið hulin ráð­gáta hvers vegna mót­töku­ritari þarf að bera lág­marks­aldur, þegar engin til­tekin menntunar­krafa er til­greind. Hvers vegna fram­kvæmda­stjóri þarf að bera há­skóla­menntun, þegar að verk­efni þeirra eru fjöl­breytt og mis­munandi, eins og fram­kvæmda­stjórar eru nú margir. Menntun er máttur en ekki al­máttur og þegar kemur að því að ráða fólk til starfa væri mun nær að horfa til reynslu þess, eigin­leika og þeirrar kunn­áttu sem ein­staklingar kunna að búa yfir, en ekki bara hvaða menntunar­stig próf­skír­teinið þeirra segir til um.

Ég veit ekki með ykkur, en ef ég væri í þeirri stöðu að þurfa að ráða aðila til þess að reka fyrir­tæki eða stofnun, teldi ég til dæmis húsa­smíða­meistara, með ára­langa reynslu af sjálf­stæðum rekstri, alveg jafn hæfan, ef ekki hæfari, en há­skóla­menntaðan við­skipta­fræðing. Dæmin eru ó­tal­mörg um aldurs­for­dóma og mennta­hroka í ís­lensku sam­fé­lagi, og vinnu­markaðurinn bara ein af mörgum birtingar­myndum þess. Ég vona að á komandi árum komum við til með að meta ein­stak­linga fyrir hæfni þeirra, ekki bara próf­skír­teinið.

Sú var tíðin að mér hugnaðist að læra að verða grunn­skóla­kennari. Þá sagði einn af mínum fram­halds­skóla­kennurum við mig að „góður kennari yrði frá­bær með menntun, en lé­legur kennari yrði aldrei góður, sama hversu mikið hann menntar sig“. Ég held að gamli kennarinn minn hafi haft mikið til síns máls, en hvað veit ég svo sem, enda bæði ungur og ekki með neina há­skóla­gráðu.

Höfundur sækist eftir 2.-3. sæti á lista Sam­fylkingarinnar í Suður­kjör­dæmi fyrir al­þingis­kosningar árið 2021.