Fyrir nokkrum vikum tilkynnti Arnþrúður Karlsdóttir útvarsstýra á Útvarpi Sögu að hún hafi lokið lögfræðiprófi með Evrópurétt sem sérgrein. Er að því tilefni rétt að óska henni til hamingju með áfangann.

Í stuttu spjalli mánudagsmorguninn 12. ágúst sl. við hinn lögfræðinginn á stöðinni, Pétur Gunnlaugsson, sagðist hún hafa komist að því eftir mikið grúsk að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar hafi ákveðið að staðfesta þriðja orkupakkann fyrir sameiginlegu EES-nefndinni á ríkisstjórnarfundi þann 28. apríl 2017 eða viku fyrir þann dag sem staðfestingin í sameiginlegu EES-nefndinni fór fram. Það sem hún vitnar þarna til, er líklega fundargerð ríkisstjórnarfundar sem haldinn var 28. apríl 2017, þar sem utanríkisráðherra, samkvæmt reglum, tilkynnti ríkisstjórninni hvaða gerðir yrðu staðfestar á næsta fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar.

Nú veit ég ekki nákvæmlega hvað lögfræðistúdentum með evrópurétt sem sérgrein er kennt. En eitt veit ég, að hefði frú Arnþrúður haft fyrir því að kynna sér málið, eða bara segja satt, þá hefði ályktun hennar eflaust orðið önnur.

Þegar EES-gerðir, án aðlögunar eru sendar til staðfestingar í sameiginlegu EES-nefndinni, er talað um að taki ekki skemmri tíma en tvo mánuði að koma gerðinni til sameiginlegu EES-nefndinni til staðfestingar. Ef að um EES-gerð með aðlögunartexta, eins og í tilfelli þriðja orkupakkans er að ræða, þá tekur það mun lengri tíma, að minnsta kosti 4- 6 mánuði að koma gerðinni til sameiginlegu EES-nefndarinnar til staðfestingar. Þannig að halda því fram að það hafi bara liðið vika frá því málið fór héðan og það var staðfest í sameiginlegu EES-nefndinni, ef í besta falli afar valkvæð og yfirgripsmikil vanþekking á málinu, svo ekki sé sterkar að orði kveðið.

Arnþrúður gerði hins vegar vel í því að hrósa Gunnari Braga fyrir vel unnin störf í innleiðingarferlinu, enda er aðlögunnartextinn að mestu eða öllu leyti saminn í hans tíð sem utanríkisráðherra og vel hægt að halda því fram að hann sem utanríkisráðherra hefði lokið ferlinu, ef svokallað Wintris-mál hefði ekki komið upp vorið 2016 og hann farið í annað ráðuneyti í kjölfar afsagnar Sigmundar Davíðs sem forsætisráðherra.

Arnþrúður undrast það að ekki séu til nýrri minnisblöð frá utanríkisráðherra, en frá tíma Gunnars Braga. Því er til að svara hvað það varðar, að reyndar er síðasta bréfið skrifað eða það sent til utanríkismálanefndar Alþingis, seint í júní eftir að Lilja Alfreðsdóttir var tekin við sem utanríkisráðherra. Ástæða þess að bréfin urðu ekki fleiri frá ráðuneytinu er einfaldlega sú að af sínum alkunna dugnaði hafði Gunnari Braga nánast tekist að klára málið, en áðurnefnt Wintris-mál rænt hann heiðrinum að fá að senda málið til sameiginlegu EES-nefndarinnar.

Enn og aftur óska ég Arnþrúði til hamingju með útskriftina en læt þó í ljós þá ósk mína að nám hennar gagnist henni og hlustendum Útvarps Sögu betur í framtíðinni.