„Það vilja allir verða gamlir, en það vill enginn vera gamall,“ er setning sem heyrist oft og hefur nú fengið grafalvarlegan tón þegar litið er á meðferð á eldra fólki eins og heyrum um í fréttum daglega af stöðu hjúkrunarheimila landsins.

Hjúkrunarheimilin sem eiga að annast okkar dýrmætasta fólk og tryggja þeim öryggi, vellíðan og mannlega reisn síðustu árin á langri vegferð lífsins, hafa nú hvert af öðru hafið fjárhagslegt endurmat á umönnun skjólstæðinga sinna og þar verður fyrst fyrir niðurskurðarhnífnum það sem síst skyldi: Mennskan.

Fjársvelt öldrunarþjónusta leiðir af sér ómanneskjulegar afleiðingar eins við höfum fengið að heyra af.

Á dögunum heimsótti ég dagþjálfun aldraðra og öryrkja. Á meðal annarra er þar hópur fólks sem er á biðlista eftir að fara á hjúkrunarheimili. Margir úr þeim hópi kvíða því sem þar muni bíða þeirra. Því þau óttast að lífið á hjúkrunarheimilinu verði fábreytt og kaldranalegt.

Í dagþjálfuninni sem þau njóta nú er þeim gefinn kostur á uppbyggilegri samveru ásamt fjölbreyttum verkefnum til eflingar líkama og huga. Þar sem þau njóta virðingar og fá áhugaverð verkefni að fást við, allt eftir getu og vilja þeirra sjálfra. En ekki síst hvatningu til sjálfseflingar. Þar er vakandi auga með þörfum þeirra og löngunum og traustar hendur til halda í sem eru líka tilbúnar að taka af fallið ef einhver hrasar.

Í hörðum niðurskurðaraðgerðum sem sum hjúkrunarheimilin og öldrunarheimilin hafa gripið til, speglar það litla hið stóra í ísköldu samhengi. Það sem hefur t.d. alltaf þótt sjálfsagt sem hluti af heimilislífinu er það ekki lengur. Það er settur verðmiði á hvert handtak, hvert augnatillit. Eins og það að fylgja fólki í hársnyrtingu, er orðið ásteitingarsteinn rekstraraðilans og ríkisins og spurt er: Hver á að borga fyrir þetta?

Aldrað fólk er viðkvæmur hópur í samfélaginu. Þetta er kynslóð sem hefur ekki uppi háværar kröfur og hefur þurft að láta sig hafa ýmislegt á langri ævi. Þau hafa ekki sterka rödd í samfélaginu sem þau þó byggðu upp hörðum höndum. Aldrað fólk metur sjálfsvirðingu sína mikið rétt eins og aðrar kynslóðir. Aldrað fólk tengir sjálfsmynd sína við útlit sitt; já, rétt eins og annað fólk.

Örvæntingarfullt eldra fólk og aðstandendur þeirra hafa samband við félög eldri borgara og spyrja í örvinglan hver sé réttur þeirra og hvert þau eigi að snúa sér. Hvað er rétta svarið? Hvert á að snúa sér þegar sjálf mennskan hefur verið skorin niður

Höfundur er leikstjóri og eldri borgari og frambjóðandi Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður.