Í fataskápnum mínum hangir kjóll sem ég hef aðeins klæðst einu sinni. Hann er flöskugrænn og hnésíður og mun nýtast verði ég einhvern tímann gerð að bankastjóra. Kjóllinn fangar þann vanda sem steðjar nú að íslensku bókmenntalífi og birtist – eða birtist ekki – íslenskum almenningi í vikunni.

Árið 2018 riðuðu bresku Booker-bókmenntaverðlaunin til falls. Fyrir fullum sal af körlum í smóking og konum í síðkjólum veitti demantsskreytt hertogaynja af Cornwall (nú Englandsdrottning) írskri skáldkonu helstu bókmenntaverðverðlaun landsins undir taktföstu lófaklappi. Formaður dómnefndar, maður með þverslaufu og tilkomumikinn orðaforða, sagði sigri hrósandi bókina „þunga“ aflestrar. Sjálfur hefði honum þó ekki fundist hún of erfið því hann „væri vanur að lesa fræðigreinar í Tímariti heimspekinga“.

Hin torlæsa bók féll í grýttan jarðveg. „Hugtakið fagurbókmenntir virðist ekki lengur merkja góðar bókmenntir heldur bókmenntir sem lúta stílreglum sem ætlað er að fullvissa menningarlega metorðasjúka millistéttarlesendur um að þeir taki þátt í fínum félagslegum helgisið,“ skrifaði bókmenntarýnir dagblaðsins The Times.

Íslensku bókmenntaverðlaunin voru veitt í vikunni á Bessastöðum. Sú staðreynd fór fram hjá mér þangað til skáldið Anton Helgi Jónsson greindi frá því á Facebook að viðburðurinn hefði líka farið fram hjá honum. „Því miður virðist ekki vera nein stemming í kringum þessi verðlaun lengur,“ skrifaði Anton. „Fyrir jólin eru límdir miðar á bækur en lítið sem ekkert er gert til að magna upp spennu … Það eru engir sérstakir viðburðir auglýstir þar sem tilnefndir höfundar mæta og ræða verk sín og lesa upp, engar málstofur eru haldnar um bækurnar, engir lesendur eru fengnir til að segja álit sitt … Einu sinni dreif brennandi áhugi fólk út í heitar umræður um bækur en núorðið fæst enginn til að hafa skoðun á neinu.“

Verðlaunaafhending Bresku bókmenntaverðlaunanna 2018 var eins og uppskeruhátíð sértrúarsafnaðar þar sem samstillt menningarelíta klappaði hugsunarlaust fyrir sjálfri sér. Endalok veraldar – eða verðlaunanna – hlutu að vera handan hornsins.

En Bretum tókst að afstýra Harmageddon. Menningarblaðamenn göptu af undrun yfir tilnefningum síðasta árs. Bækurnar voru „stuttar“ og „fyndnar“. Formaður dómnefndar hafði í frammi hugtök sem áður þóttu villutrú: „Ánægjulestur“ og „skemmtanagildi“.

Kjóll og kúluhattur

Flöskugræni kjóllinn í fataskápnum rifjaðist upp fyrir mér þegar ég horfði á upptöku af Íslensku bókmenntaverðlaununum í Sjónvarpinu (helgiathöfn sem lét eldhúsdagsumræður virðast jafnspennandi og kvikmyndin „The fast and the furious“). Kjóllinn var keyptur af tilefni. Ég hafði hlotið tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og var á leiðinni á Bessastaði. Kjóllinn hefði ekki getað hæft samkomunni betur. Hann hefði einnig fallið vel inn í fataskáp Margrétar Thatcher.

Menningarlegt sjónarspil hefur leyst af hólmi bókmenntalíf heillar þjóðar. Í stað skoðanaskipta eru nú límmiðar, í stað ritdeilna eru verðlaunasamkomur: Tækifærisræða, ráðamaður og eitt tónlistaratriði; kona í svo dömulegum kjól að hún fær aldrei tilefni til að nota hann aftur, maður með kúluhatt og – helst – Andri Snær. Vogi sér einhver, lærður eða leikinn, að gefa bók færri en fjórar stjörnur er viðkomandi úthrópaður skemmdarvargur og hann rekinn inn í sama kústaskáp og leikhúsheimurinn læsti Jón Viðar Jónsson inni í.

Handhafar Íslensku bókmenntaverðlaunanna eru vel að þeim komnir. Verðlaun geta snaraukið áhuga á bóklestri. En til þess að svo megi verða þarf umræðan að rúma fleiri en bókmenntafræðinga og fólk með háskólagráðu í menningarstjórnun og bakka af snittum.