Það er umhugsunarefni fyrir Vinstri græn, sem leitt hafa ríkisstjórn á kjörtímabilinu sem senn er á enda, að enn er Ísland sú þjóð innan Evrópska efnahagssvæðisins sem mengar mest. Raunar er þetta áhyggjuefni fyrir umhverfissinna í hvaða flokki sem er, en kemur þó kannski verst við kaunin á fyrrgreindum flokki sakir stöðu hans í landsmálum.

Heildarlosunin á gróðurhúsalofttegundum á Íslandi á kjörtímabilinu hefur verið fimm sinnum meiri en meðallosunin í ríkjum Evrópu­sambandsins og rösklega tvöfalt meiri en í Lúxemborg, þar sem losunin er næstmest miðað við höfðatölu.

Veldur hér mestu vaxandi flugrekstur og skipaflutningar á undanliðnum áratug, en heima fyrir standa landsmenn sig líka verr í þessum efnum en gengur og gerist í löndunum í kring. Losun á hvern einstakling frá íslenskum heimilum hefur verið meiri en hjá hinum Norðurlöndunum, en skýringarinnar er einkum að leita í vinsældum einkabílsins hér á landi.

Allt ber hér að sama brunni. Í loftslagsmálum stendur Ísland sig illa.

Og hvað hefur einmitt verið gert í þessum málaflokki á kjörtímabilinu? Stjórnvöld hafa lýst því yfir að þau hafi uppfært loftslagsmarkmið sín og boði nú 55 prósenta samdrátt í losuninni fyrir árið 2030. En annað er að heyra úr hljóðnemanum. Jafnt forsætisráðherra og umhverfisráðherra hafa sagt í viðtölum við fjölmiðla að samdrátturinn á þessum tíma verði nær 40 prósentum.

Á sama tíma hafa einstök Evrópuríki sett sér mun metnaðarfyllri markmið en íslensk stjórnvöld. Noregur stefnir á 55 prósenta minni losun fyrir 2030, Svíþjóð stefnir á 63 prósenta minni losun fyrir þann tíma og Danmörk 70 prósenta.

Svo virðist sem á Íslandi eigi að athuga málið.