Arnar Þór Jónsson héraðsdómari hefur farið mikinn í þjóðmálaumræðunni um þriðja orkupakkann og ekki sparað stóru orðin. Nýverið hélt hann því fram að EES-samningurinn væri sérsamningur sem gangi framar almennum þjóðréttarsamningnum og að almennar reglur þjóðaréttar eigi ekki við á sviði Evrópuréttar eins og áréttað hafi verið í dómaframkvæmd.

Af þessari hugmynd dómarans leiðir að það á ekki að skýra ákvæði EES-samningsins um frjálst flæði vöru til samræmis við ákvæði hafréttarsamnings SÞ um sæstrengi. Þetta hefur töluverða þýðingu því eins og undirritaður hefur rakið á þessum vettvangi leiðir af hafréttarsamningnum, í samræmi við fullveldi ríkja, að ríki ráða því hvort lagður sé sæstrengur inn fyrir 12 sjómílna landhelgi þess.

Rangar fullyrðingar

Þessari hugmynd voru gerð góð skil í Staksteinum Morgunblaðsins í síðustu viku og á vef Morgunblaðsins. Umræddar fullyrðingar dómarans eru rangar. Þær stangast á við 216. gr. sáttmálans um starfshætti ESB (e. Treaty on the Functioning of the European Union), tugi dóma Evrópudómstólsins, sameiginlega yfirlýsingu aðildarríkja EES-samningsins um tengslin milli samningsins og annarra gildandi samninga á þeim tíma sem EES-samningurinn var gerður, dóma EFTA-dómstólsins, 31. gr. Vínarsamningsins um milliríkjasamninga (e. Vienna Convent­ion on the Law of Treaties), skrif fræðimanna um tengsl Evrópuréttar og þjóðaréttar og þeirrar viðleitni alþjóðlegra dómstóla síðustu áratugi að halda hinu alþjóðlega regluverki heildstæðu.

Samræmi

Of langt mál er að rekja efni ofangreindra heimilda. Í stuttu máli þá er Evrópuréttur almennt skýrður til samræmis við þjóðarétt enda ESB sem og EES-samstarfið reist á þjóðréttarsamningum. Benda má á að öll aðildarríki EES-samningsins eru aðilar að hafréttarsamningnum auk þess sem ESB sjálft er aðili að honum. Í því samhengi skal hafa í huga 2. mgr. 216. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins sem segir að samningar, sem ESB geri, séu bindandi fyrir stofnanir þess og aðildarríki. Af hverju ætti ESB því ekki að virða reglur hafréttarsamningsins um sæstrengi í samskiptum sínum við Ísland?

Hvar er sæstrengjaskyldan?

Að lokum er rétt að benda á að engum hefur tekist að sýna fram á nákvæmlega með hvaða hætti inn­leið­ing þriðja orkupakkans eða ákvæði EES-samningsins um frjálst flæði vöru leiði til þess að íslenska ríkið verði skuld­bundið til að leyfa lagn­ingu sæstrengs til eða frá Íslandi sem flytur raf­orku til ann­ars rík­is. Í því samhengi þýðir ekki að vísa til almennra stefnumarkmiða í inngangsorðum eða meginreglna.

Hvernig væri að styðjast í meira mæli við staðreyndir í orkupakka­umræðunni?