Þetta er mikilvægt ár. Árið 2020 var það hlýjasta í skráðri sögu. Um leið og við komum út úr COVID-kreppunni verðum við að byggja upp betri og grænni lausnir til þess að takast á við langtíma áhrif loftslagsbreytinga. Ef við breytum ekki nálgun okkar munum við sjá frekari öfgar í veðri, súrnun sjávar mun hafa áhrif á sjávarlíf og minni líffræðilegur fjölbreytileiki verður til staðar.

Þessar breytingar hafa bein áhrif á Bretland og Ísland. Þær hafa fjárhagsleg áhrif á okkur, sem og á lifnaðarhætti okkar. Þess vegna ákvað Bretland í nýlegri endurskoðun á utanríkis-, öryggis- og þróunarsamvinnustefnu sinni að setja loftslagsmál efst á forgangslistann í alþjóðlegu tilliti. Það er ástæðan fyrir því að Bretland tilkynnti í apríl að við myndum ganga lengra og hraðar í að minnka loftslagsáhrif okkar – eða um 78% fyrir 2035 á leið okkar til kolefnishlutleysis. Við erum komin vel á veg, á annan í páskum, á hápunkti notkunar, komu 80% af þeirri orku sem Bretar notuðu frá kolefnishlutlausum orkugjöfum.

Loftslagsmál eru vandamál heimsins. Aðgerðir annarra hafa áhrif á okkur öll. Þess vegna höfum við heitið 11,6 milljörðum punda (rúmlega 2.000 milljörðum íslenskra króna) til þess að styðja við alþjóðlega fjármögnun loftslagsaðgerða og, sem önnur formennskuþjóða COP26 í Glasgow, hvetjum við aðrar þjóðir til þess að bregðast við með meiri hraða og metnaði.

Á leiðtogafundi um loftslagsmetnað sem Bretland hélt í desember 2020 hét Ísland því að draga enn frekar úr losun loftslagstegunda fyrir 2030. Ísland ætti að vera í forystu þeirra þjóða sem leiða heiminn í viðbrögðum við loftslagsbreytingum. Það hefur nú þegar forskot með aðgangi sínum að hreinni orku. Ísland þarf einnig að vernda ímynd sína sem grænt land. Með vaxandi áhuga heimsins á loftslagsmálum gæti Ísland skoðað enn frekar hvað það getur gert til þess að ná metnaðarfullum markmiðum fyrir 2030 – meira en sem einfaldlega hluti af markmiðum Evrópusambandsins um 55% samdrátt.

Það er hins vegar frábært að útlit er fyrir að Ísland geti náð kolefnishlutleysi miklu fyrr en aðrar þjóðir gegnum frumvarpið sem lagt var fyrir Alþingi nýlega, þar sem lagt er til að Ísland nái kolefnishlutleysi fyrir 2040 (flestar aðrar þjóðir eru að horfa á árið 2050). Ef frumvarpið er samþykkt yrði Ísland í fremstu röð þjóða hvað þetta varðar – sem styður mjög við græna ímynd landsins. Enn fremur myndi þetta styðja við þróun efnahagslífsins í nýja átt.

Markmið eru nauðsynleg og geta verið áskorun en á sama tíma bjóða þau upp á tækifæri. Þessi tækifæri leitumst við í auknum mæli við að vinna og nýta með Íslandi. Við lifum á tímum hraðra tæknibreytinga sem er blanda af grænu hagkerfi með nýrri tækni eins og gervigreind og 5G/6G. Með því að leita að umhverfisvænni og heilbrigðari leiðum til þess að lifa getum við jafnframt ýtt undir þróun nýrra starfa og stofnun nýrra fyrirtækja sem leysa vandamál framtíðarinnar um vinnu og samfélög sem eru að eldast.

Þetta er ekki draumsýn. Bretland hefur náð að minnka losun sína um 42% miðað við árið 1990, á meðan efnahagur okkar óx um 73%. Við ættum því ekki að sjá þetta sem byrði heldur spennandi nýja tíma til þess að þróa samfélag okkar og efnahag, samhliða því að minnka umhverfisáhrif okkar – okkur öllum til heilla.

Höfundur er sendiherra Bretlands á Íslandi.