Bakþankar

Meiri hvalveiðar

Bókin um Moby Dick fjallar um eltingarleik Ahabs skipstjóra við samnefnt stórhveli. Dýrið verður að illvígri þráhyggju í huga Ahabs sem firrir hann bæði dómgreind og skynsemi. Þessari viðureign lauk með fullnaðarsigri skepnunnar en Ahab hvarf ásamt skipi sínu í hafsins djúp. Mikill ævintýrablær hefur alltaf verið yfir hvalveiðum. Íslendingar fóru reyndar ekki að skutla hval fyrr en upp úr seinni heimsstyrjöldinni en hafa gert það ótrauðir síðan.

Alþjóðasamfélagið hefur litið þessar veiðar hornauga vegna útrýmingarhættu dýranna. Íslendingar hafa alltaf blásið á slíkan málflutning enda segjast þeir eiga heilagan rétt til hvalveiða. Erlendar rógtungur breyta ekki þeirri staðreynd. Stundum er eins og sjálfstæði þjóðarinnar standi og falli með hvalveiðum.

Í sumar hafa menn drepið hval þrátt fyrir öflug mótmæli. Enginn virðist þó vita hvað gera skuli við allt kjötið enda fáir kaupendur í hvalveiða-fjandsamlegum heimi. Menn eru því ekki að drepa hval í gróðaskyni heldur af tómri ættjarðarást. Á dögunum drógu menn á land mikið stórhveli í Hvalfirði. Heimsbyggðin stóð á öndinni og sagði að um alfriðaða steypireyði væri að ræða. Íslendingar hlógu að slíkum málflutningi enda kom í ljós að dýrið var bara steypireyður í aðra ættina. En nú verður þjóðin að sameinast í stuðningi við hvalveiðar.

Hver einasti Íslendingur ætti að torga a.m.k. kílói af hvalkjöti á viku til að styðja við hvalveiðimenn. Við endurritum bókina um Moby Dick. Þráhyggjan er söm við sig en í þetta sinn látum við Ahab skipstjóra sigra og draga Moby Dick upp á planið í hvalstöðinni. Við megum drepa allan þann hval sem við finnum. Í versta falli getum við bara urðað kjötið.

Auglýsing
Auglýsing