Vaxta­hækkun Seðla­bankans í vikunni í 1,25 prósent – önnur hækkunin á lið­lega þremur mánuðum – átti ekki að koma neinum á ó­vart. Þótt deila megi um hvort réttara hefði verið að bíða með hana fram á haustið vegna ó­vissu um á­hrifin af Delta-af­brigðinu á ferða­þjónustuna, skuld­setta at­vinnu­grein í að­þrengdri stöðu, þá telur Seðla­bankinn það vega þyngra að ný þjóð­hags­spá sýnir að hag­kerfið virðist vera að rétta úr kútnum með kraft­meiri hætti en bankinn hafði þorað að vona. Hag­vöxtur verður um­tals­vert meiri í ár en áður var spáð, at­vinnu­leysi fer hratt minnkandi – það er komið á sama stað og fyrir far­aldurinn – og horfur fyrir krónuna hafa styrkst.

Góð tíðindi búa því að baki vaxta­hækkuninni. Skjótar og af­gerandi að­gerðir sem gripið var til í fyrra skiluðu árangri. Sögu­legar stýri­vaxta­lækkanir, á­samt ráð­stöfunum til að beina fjár­munum út í hag­kerfið eins og að loka fyrir bundin inn­lán í Seðla­bankanum, milduðu efna­hags­lega höggið af völdum far­sóttarinnar og juku ráð­stöfunar­tekjur megin­þorra heimila. Af­leiðingarnar birtast okkur í miklum verð­hækkunum á eigna­mörkuðum, meðal annars á fast­eigna- og hluta­bréfa­markaði, rétt eins og að var stefnt. Seðla­bankinn horfir hins vegar nú til þess að tempra kerfið, með því að draga lítil­lega úr fram­boði á ó­dýru láns­fé, og skila­boð seðla­banka­stjóra eru að við þurfum kannski núna „minna kapp, en meiri for­sjá“.

Kjós­endur hljóta að hafa það í huga þegar stjórn­mála­flokkarnir byrja yfir­boðin á ó­fjár­mögnuðum kosninga­lof­orðum sínum.

Fáum dylst að krónan hefur hjálpað okkur veru­lega við þessar að­stæður. Þannig myndi engum ó­brjáluðum manni detta það í hug að Ís­lendingum hefði farnast betur að eiga við efna­hags­legar af­leiðingar far­aldursins með gengið fast við evruna og engin úr­ræði til að beita vaxta­tækinu til að örva hag­kerfið. Ó­líkt mörgum öðrum þjóðum, sem voru með vextina við núllið, gátum við beitt peninga­stefnunni af fullum þunga og á­fallið fyrir ríkis­sjóð hefur því verið minna en ella. Á grunni sterkrar stöðu þjóðar­búsins – mikill gjald­eyris­forði, til­tölu­lega hag­stætt gengi fyrir út­flutnings­greinarnar, lágir vextir og gríðar­lega vel fjár­magnað banka­kerfi – er á­stæða til bjart­sýni á efna­hags­horfurnar og að fjár­festing í at­vinnu­lífinu muni taka við sér.

Fram­haldið mun einkum velta á stjórn­málunum núna þegar styttist í kosningar. Með skyn­sam­legri hag­stjórn, sem hvílir á Seðla­bankanum, ríkinu og aðilum vinnu­markaðarins, eru allar for­sendur fyrir því að vextir haldist lægri en áður hefur þekkst í hag­sögunni sam­tímis góðu jafn­vægi í hag­kerfinu. Kjós­endur hljóta að hafa það í huga þegar stjórn­mála­flokkarnir byrja yfir­boðin á ó­fjár­mögnuðum kosninga­lof­orðum sínum. Reynslan sýnir nefni­lega að það er hægur leikur að glutra niður góðri stöðu á skömmum tíma.