Dagarnir eru margir og stöðugt er verið að finna upp aukaheiti á þeim. Einmitt þannig varð skyndilega til Dagur einhleypra. Sá dagur virðist hafa verið sérstaklega hannaður í þeim tilgangi að bregða birtu inn í líf einhleypra. Líf sem af einhverjum ástæðum er flokkað sem fremur einmanalegt, tíðindalítið og gleðisnautt.

Stórfyrirtæki víða um heim eru iðin við að þefa uppi heppilega neytendur og þarna klikka þau ekki. Fyrirhafnarlítið bregða þau sér í líki fyrirtækis sem vill sýna samfélagslega ábyrgð og opinbera umhyggju sína gagnvart þessum afskipta hópi. Ekki verður það betur gert en með alls kyns lokkandi tilboðum þar sem veittur er ríflegur afsláttur.

Og það bregst ekki að mikill fögnuður grípur um sig meðal einhleypra víða um heim, sem sanka að sér alls kyns hlutum sem þeir hafa svo sem ekki mikla þörf fyrir, en þeim er sagt að muni auðga fremur aumt líf þeirra. Sælan er svo löngu fokin út í veður og vind þegar næsti einhleypingadagur rennur upp – og þá er um að gera að sanka að sér meira dóti á tilboðsverði.

Annar dagur þessum líkur er í dag og þykir reyndar miklu merkilegri, því hann er ætlaður öllum. Þetta er svarti föstudagurinn – Black friday. Sá hluti heims sem býr við velmegun gleymir sér í æðisgengnu kaupæði þennan dag. Eiginlega er ekkert svo ómerkilegt að ekki sé ástæða til að kaupa það í dag með 20 til 70 prósenta afslætti.

Á undanförnum mánuðum hafa hinir jákvæðu í þessum heimi, í sönnum Pollý­önnu-­anda, spurt hvað við getum lært af Covid og svarað sjálfum sér: „Nægjusemi og mikilvægi einfaldara lífs en við lifðum áður.“ Þetta er vissulega háleit hugsun en stenst því miður engan veginn svarta-föstudags-prófið.