Skoðun

Mein sem menntun lagar

Fáir misstu af fautaskap þingmannanna sem nýlega urðu uppvísir að kvenfyrirlitningu, hatursorðræðu og fordómafullum viðhorfum. Hægt er að fara í frekari umræðu um hvað var rangt við þetta, en það sem við virkilega þurfum að gera sem þjóðfélag er að spyrja okkur: Hvað ætlum við að gera til þess að draga úr þessháttar viðhorfum?

Þarna er fullorðið fólk í valdastöðum sýna andstæðu þeirra viðhorfa og gilda sem kynslóð þeirra sjálfra hefur tönglast á að við unga fólkið eigum að temja okkur. Við verðum því að horfa inn í þjóðarsálina og spyrja af hverju tíðkast svona ljót og illgjörn orðræða á meðal fólks sem á að vera búið að ná meiri þroska á lífsbrautinni? Hvað klikkaði í menntun þessara þingmanna? Við höfum heyrt sögur frá fornu fari þessa lands um að frekja, klíkuskapur, hótfyndni og valdsamleg framkoma gagnvart minni máttar séu gildi sem nánast hafi verið höfð í heiðri. Slíku verður ekki útrýmt með lögum og því felst eina von okkar í aukinni menntun og upplýsingu sem skilar sér í meiri víðsýni, umburðarlyndi og mannvirðingu. Við þurfum að leggja miklu meiri áherslu á siðfræði og kynjafræði í skólum þessa lands.

Fyrr á árinu var haldin „rakararáðstefna“ (e. barber shop) þar sem þingmenn á Alþingi áttu opna umræðu um kynferðisofbeldi og fordóma. Þar tóku Gunnar, Bergþór og Sigmundur þátt, en er þá ekki of seint gripið í tauminn? Þarf ekki að byrja að kenna kynjafræði og siðfræði strax í grunnskólum og framhaldsskólum? Stefna SÍF sem var samþykkt á aðalþingi árið 2017 stefnir að því að kynjafræði skuli vera kennd í framhaldsskólum landsins og vinnum við að því samkvæmt  framkvæmdaráætlun.

Að sama skapi þarf stjórnmálakerfið að bæta siðferði sitt sem nú er ekki á hærra stigi en svo að það er talið í lagi að hunsa vilja þjóðar í sumum málum og þjóna hagsmunum fárra á kostnað fjöldans. Þessi ómenning er nátengd ástæðunum fyrir því af hverju orðræða alþingismanna á Klausturbar var á svona lágu plani.

Í störfum mínum fyrir Samband íslenskra framhaldsskólanema hef ég verið svo lánsöm að kynnast lítillega núverandi menntamálaráðherra og fá að heyra hennar sýn á framtíð menntunar í þessu landi. Vekja þær hugmyndir góða von um að hægt sé að auka verulega áherslu á þessa þætti sem þroskað geta okkur öll sem þjóð. Aukin siðfræði, heimspeki og kynjafræði geta sannarlega hjálpað okkur og verið farvegur til nýs áfanga sem er greinilega brýnna að ná en okkur öll grunaði.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Skoðun

Góð verkfærakista fyrir frumkvöðla
Friðrik Friðriksson

Skoðun

Fyrirtækjum gert skylt að upplýsa um meira en aðeins fjárhaginn
Soffía Sigurgeirsdóttir

Skoðun

Vöxtur rafíþrótta
Björn Berg Gunnarsson

Auglýsing

Nýjast

Margþættur ávinningur af sölu bankanna
Páll Harðarson

Haldið að sér höndum
Kristrún Frostadóttir

Lestrarhestar
Kolbrún Bergþórsdóttir

Hug­leiðingar um brott­fall kjara­ráðs
Haukur Haraldsson

Hvers vegna hvalveiðar?
Úrsúla Jünemann

Fyrsta heilbrigðisstefnan?
Ingimar Einarsson

Auglýsing