Í gamla daga þótti sniðugt að bjóða upp á megrunar­ráð í dag­blöðum. Oft snerust ráðin um að rétta af svo­kallaðar rang­hug­myndir fólks um mat. Ein slík dæmi­saga snerist um konu, af því að konur eru alltaf fórnar­lömbin í svona hryllings­sögum.

Konan fékk sér alltaf litla sneið af kökunni í saumó, minni sneið en hana langaði í. Svo fékk hún sér aðra, af því að litla sneiðin skipti engu máli. Svona hélt þetta á­fram þangað til kakan var búin. Konan í dæmi­sögunni var að sjálf­sögðu for­dæmd og skipað í drep­leiðin­legan eggja­kúr níunda ára­tugarins og ævarandi skömm yfir því að líta ekki út eins og Melani­e Griffith í Working Girl.

Tímarnir hafa breyst. Dag­blöðin eru hætt að birta megrunar­sögur, með fyrr­greindri undan­tekningu. Les­endur undir þrí­tugu vita ekkert hver Melani­e Griffith er og fæst hafa séð Working Girl. Þetta er samt frá­bær mynd, kom út 1988 og Sigour­n­ey Wea­ver er með stór­leik. Þetta er líka ein besta ræman sem Har­ri­son Ford hefur leikið í, með boð­skap sem eldist mun betur en Pretty Woman. Car­ly Simon á titil­lag myndarinnar Let the River Run og fékk Óskars­verð­laun fyrir. Gæsa­húðar­lag, æðis­leg kór­út­setning. Graceland-á­hrifin frá Paul Simon greini­leg. Það virðist enginn tala um hvað Elton John var undir miklum á­hrifum þaðan, nokkrum árum seinna. Enginn talar lengur um tón­listina í Lion King.

Svo er þetta með kökuna. Við höfum áttað okkur á því að það má alveg borða köku. Alveg rétt. Konan í sögunni. Hvar vorum við nú aftur?

Það er svo margt sem skiptir miklu meira máli en þessi köku­saga. Svo margt sem er merki­legra en kúrar og kal­oríur, sem er skemmti­legra að tala um. Það er senni­lega þess vegna sem við erum hætt að skrifa um megrun.