Ég á kött, sem mér þykir mjög vænt um, með kærustunni minni. Hún er svona kósí köttur, með þykkan feld, svona kúrukisa. Henni finnst gott að fara út en samt bara smá, enda orðin nokkurra ára gömul.

Núna er hún komin í megrun. Hún var nefnilega orðin aðeins of þung að sögn dýralæknisins og við eiginlega vissum upp á okkur sökina. Það var nefnilega svo gaman að gefa henni góðgæti, harðfisk og svona, og sjá hana alla ljóma.

Nú skömmtum við henni fóðrið. Hún fær 60 grömm á dag. Stundum 70 ef maður vill friða samviskuna þegar hún beitir mjálminu gegn manni.

Heyrðu, eftir nokkrar vikur í megrun kemur á daginn að henni líður bara miklu betur. Hún er miklu orkumeiri, hressari og leikur sér með dót sem hún hafði aldrei leikið sér með áður. Það var þá aldrei greiði við hana að gefa henni meiri mat.

Ég viðurkenni að við þessa uppgötvun reikaði hugurinn til eigin mataræðis. Ég nefnilega trúi ekki á megrun.

Ég myndi nefnilega held ég brillera í nokkra daga, kannski vikur. Og örugglega líða betur. En svo myndi ég óhjákvæmilega gefast upp og taka aftur upp frekar venjulega en ekkert sérstaka lifnaðarhætti mína með tilheyrandi bjórþambi.

Þannig að svona verður þetta í desember. Á meðan ég panta mér fimmhundraðasta þriðjudagstilboð ársins og háma í mig jólamatinn yfir hátíðarnar verður kisa að njóta lífsins með sín 60 grömm af mat. Kannski að kisan ætti bara að eiga mig frekar en öfugt.