Mikilvægasta megingildi lífsins er að vera góður við börn. Ekkert er verðugra í mannlegum samskiptum. Ekkert er stórmannlegra en að hlúa að velferð og möguleikum yngsta fólksins okkar.
Ekkert.
Og það felur í sér framtíðina. Einmitt. Það er til þess gert að bæta ókomin ár. Og ef við fullorðna fólkið, reynslunni ríkari, eigum að heita til einhvers gagns í lífinu þá snýst það akkúrat um það að bæta lífsgæði þeirra sem á eftir okkur koma.
Það er meginerindið.
Það er af þessum sökum sem fólk sárreiðist þeirri meginskissu samfélagsins að forgangsraða í þágu annarra en barna og ungmenna. Og raunar jafnvel í þágu þeirra sem hafa það best, eiga greiðastan aðgang að auðlindum okkar. En það er af því að pólitíkinni er einkar lagið að gleyma sér í þakklætisskyni yfir því hver klappar henni hlýjast á öxlina – og gildir raunar einu hvaða flokkar eiga í hlut; börnin okkar eru auðvitað ekki kjósendur nema í svo óralangri framtíð að það tekur því ekki að ávarpa þau í hita líðandi stundar.
En fyrir foreldra barna sem glíma við þroskahömlun, fatlanir og langvarandi veikindi eru þetta skilaboð sem svíða á skinni. Og slíkur er sviðinn að fólki verður ekki svefnsamt. Og það er einmitt og akkúrat vegna þess að ekkert er mikilvægara en börnin okkar.
Það er ekki bara stóra myndin. Það er öll myndin.
Nógu slæmt er það fyrir foreldra að taka þátt í biðlistamenningu íslenska samfélagsins, að vera nauðbeygðir til þess eins að bíða eftir þjónustu sem er oft og tíðum lífsnauðsynleg – og skiptir í öllu falli sköpum fyrir þroska og farsæld barnsins. En enn þá verra er þetta fyrir afkvæmið sjálft, sem kann að spyrja, vitanlega: Hefur enginn áhuga á að hjálpa mér?
Íslendingar eru komnir á skjön við megingildi þeirrar samfélagsgerðar sem mesta og breiðasta sáttin hefur ævinlega staðið um, en hún hverfist um það helst að hlúa að þeim sem mest þurfa á aðstoðinni að halda.
En í verki látum við börnin okkar bíða eftir sálfræðiþjónustu svo mánuðum skiptir. Í verki látum við þau bíða eftir talmeinaþjónustu svo árum skiptir. Og raunheimarnir eru heldur ekkert merkilegri en svo að við látum börnin okkar bíða eftir greiningu á þroskafrávikum eins lengi og kerfinu sýnist.
Það má vel vera að pólitík eigi að snúast um efnahagslegan veruleika. En pólitíkinni er stjórnað af fólki, foreldrum. Og það vill svo til að foreldrar vita á öllum tímum sólarhringsins hvað brýnast er að gera.