Líklega hafa fáir farið varhluta af háværri samfélagslegri umræðu um kynferðislegt ofbeldi sem kölluð hefur verið önnur bylgja MeToo-hreyfingarinnar. Undanfarnar tvær vikur hafa fjölmargar konur stigið fram í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum og sagt frá ofbeldi og áreitni sem þær hafa orðið fyrir og hafa jafnvel aldrei fyrr nefnt við nokkurn mann. Þetta hafa þær gert í þeirri von að samfélagið vakni og átti sig almennilega á því hversu víðtæk áhrif slík brot hafa á þá sem fyrir verða, og í þeirri veiku von að karlar axli ábyrgð.

MeToo-hreyfingin spratt upp árið 2017 með miklum látum og hratt af stað nauðsynlegri umræðu hér á landi sem annars staðar. Glæný dæmi sýna þó og sanna að engin vanþörf er á að viðhalda umræðunni og augljóslega áttu konur fullt inni. Nóg er til af sögum um mörk sem ekki eru virt, áreitni og allt yfir í gróft ofbeldi. Þetta eru konurnar ykkar, dætur og systur og því kannski erfiðara að hrista frásagnirnar af sér.

Sögusagnir um meint ofbeldi af hálfu þekkts fjölmiðlamanns og viðbrögðin við þeim var það sem hratt af stað þessari nýju bylgju en ljóst má vera að undiraldan var sterk, ólgan hefur lengi safnast upp.

Meintur ofbeldismaður sór af sér sögusagnirnar þar til í ljós kom að fyrir lægju kærur á hendur honum. Í framhaldi hefur orðið gerendameðvirkni verið á allra vörum, að afsaka gjörðir gerenda. Tónninn í umræðunni sem viðkomandi stjórnaði framan af að miklu leyti sjálfur var að hann væri fórnarlambið. Fórnarlamb slúðurs og illkvittni. Sá tónn kom illa við þolendur ofbeldis og ýfði upp sár þeirra sem barist hafa fyrir því að vera trúað.

Kallað hefur verið eftir því að karlar axli ábyrgð og kannski ekki síst, eigi samtalið – erfiða samtalið. Þetta mein verður augljóslega ekki upprætt nema með aðkomu þeirra. Hingað til hafa karlar verið tregir til að hlusta á þessa reynslu kvenna. Það er staðreynd og ég efast um að þessi umræða sé tekin á bakkanum í veiðiferðum sumarsins eða almennt í karlaklúbbum – þó það væri óskandi.

Í kjölfar frásagna kvennanna hafa einhverjir karlar sagt frá misgjörðum sínum á eigin samfélagsmiðlum. Vilji þeirra til breytinga er sannarlega skref í rétta átt og vonandi spyrja sem flestir karlar sig erfiðra spurninga: Hef ég farið yfir mörk? En hvernig ætli sé rétt að axla ábyrgð á því að hafa ekki virt mörk?

Ég verð að leyfa mér að efast um að rétta leiðin sé að segja einhverja útvatnaða útgáfu á samfélagsmiðlum í von um hjörtu og læk. Samtalið verður að vera á forsendum þolandans og ég held að við ættum að fara varlega í að tollera þá karla sem tilneyddir taka nú loks eitthvað til sín. Karla sem setjast niður við tölvuna og segja sína útgáfu, að líkindum án nokkurs samtals við þolandann.