Mælingar á Ís­landi hafa sýnt að dóm­stólar landsins njóta mikils trausts al­mennings. Fyrir friðinn í sam­fé­laginu er þessi staða ó­metan­leg. Traust þetta er hins vegar ekki sjálf­gefið; það þarf að vinna fyrir því og við­halda og því verður mjög auð­veld­lega glutrað niður.

Ó­hlut­drægni er lykil­at­riði þegar kemur að trausti á störfum dóm­stóla; annars vegar að dómarar sýni hana í verki og hins vegar að al­menningur sem leitar til dóms­kerfisins hafi enga á­stæðu til að draga hana í efa. Ó­hlut­drægni gagn­vart máls­aðilum og sakar­efni er stundum mynd­gerð með rétt­lætis­gyðjunni þar sem hún stendur með vogar­skálarnar, með bundið fyrir augun.

Tveir þættir skipta máli þegar kemur að trausti á dóms­kerfið; ytri og innri þættir. Ytri þátturinn lýtur að því hvernig skipað er í em­bætti dómara en sá innri að orðum og at­höfnum dómaranna sjálfra.

Stjórn­mála­menn ís­lenskir hafa í áranna rás haft mikla til­hneigingu til mikilla af­skipta af skipan í em­bætti dómara; sér­stak­lega Sjálf­stæðis­flokkurinn. Hefur þar kennt margra morkinna grasa. Gefur auga­leið að al­menningur treystir síður dómurum sem hafa verið skipaðir fyrir pólitískan klíku­skap; efast megi um sjálf­stæði þeirra.

Evrópu­ráðið og Mann­réttinda­dóm­stóll Evrópu (MDE) hafa staðið vörð um sjálf­stæði dóm­stóla, bæði hér­lendis og annars staðar í Evrópu. Hefur ekki veitt af. Sem betur fer hafa af­skipti stjórn­mála­manna af skipan dómara minnkað mikið undan­farin ár. Bundið hefur verið í lög á­kveðið ferli í að­draganda skipunar dómara, þar sem hugsunin er að fag­legar um­sagnar­nefndir hafi í raun mun meira um það að segja hverjir eru skipaðir dómarar, en ráð­herra dóms­mála.

Hinn þátturinn, og ekki síður mikil­vægur, er að dómarar bæði í dómara­störfum sínum og al­mennt, hafi gagn­vart borgurum á­sýnd ó­hlut­drægni; ekki séu til staðar sér­stakar á­stæður til að draga hana í efa. Eru þetta ekki að­eins fræði­legar vanga­veltur, heldur hafa Hæsti­réttur og Lands­réttur þurft að taka á ætluðu van­hæfi dómara vegna annarra starfa þeirra og tjáningar á opin­berum vett­vangi.

Í máli Hæsta­réttar nr. 24/2019 var uppi sú krafa að vara­for­seti Lands­réttar, Davíð Þór Björg­vins­son, viki sæti í máli, vegna annars vegar ráð­gjafar­starfa sinna fyrir ríkis­lög­mann í tengslum við mála­rekstur ríkisins í Lands­réttar­málinu svo­kallaða fyrir MDE, eftir að hann var skipaður dómari við Lands­rétt og hins vegar vegna um­mæla hans um málið, m.a. eftir að dómur gekk hjá MDE. Byggði sak­borningur málsins á því að seta Davíðs í dómi sam­ræmdist ekki rétti hans til að fá úr­lausn um á­kæru á hendur sér fyrir sjálf­stæðum og ó­háðum dóm­stóli í skilningi 1. mgr. 70. gr stjórnar­skrár og 1. mgr. 6. gr. MSE.

Í dómi HR var því hafnað að auka­störfin yllu van­hæfi í málinu en um um­fjöllun vara­for­seta Lands­réttar í fjöl­miðlum segir: „…er slík þátt­taka dómara í al­mennri um­ræðu að sönnu ó­venju­leg og getur orkað tví­mælis hvort hún sé sam­rýman­leg starfi hans.“

Sá á­gæti héraðs­dómari Arnar Þór Jóns­son hefur sent frá sér fjöl­margar greinar undan­farnar vikur og misseri, þar sem fram koma ýmis­leg sjónar­mið hans og skoðanir á þjóð­fé­lags­málum. Má taka undir sumt sem hann hefur ritað af á­gætri rit­færni, en annað ekki, eins og gengur. Það er auka­at­riði.

Í máli Lands­réttar nr. 768/2019 var kærður úr­skurður téðs Arnars Þórs þar sem hann hafnaði að víkja sæti í máli ein­stak­lings gegn ís­lenska ríkinu. Krafan byggðist á því að um­mæli sem dómarinn hefði við­haft á opin­berum vett­vangi um inn­leiðingu EES-reglna væru til þess fallin að draga mætti með réttu í efa ó­hlut­drægni hans við að leysa úr sakar­efni málsins, sem varðaði inn­leiðingu á vinnu­tíma­til­skipun ESB. Lands­réttur taldi ekki rétt að Arnar viki sæti en sagði í for­sendum sínum það „orka tví­mælis" að þátt­taka dómarans í um­ræðu á opin­berum vett­vangi væri sam­rýman­leg starfi hans.

Í ljósi mikil­vægis þess að al­menningur eigi ekki að þurfa að draga í efa ó­hlut­drægni dómara og traust ríki í garð dóm­stóla, er vegur dómara inn á rit­völlinn vand­rataður. Um leið og dómari er farinn að tjá sig um pólitísk mál­efni getur það hæg­lega leitt til þess að aðili dóms­máls líti svo að hann njóti ekki sann­mælis. Þá er farið að molna undan traustinu.

Dómarar gegna gríðar­lega á­byrgðar­miklu og erfiðu starfi en á þeim hvílir einnig sú ríka skylda að gera ekkert sem orkað getur tví­mælis og er til þess fallið að draga ó­hlut­drægni þeirra í efa. Fyrir liggur að Hæsti­réttur Ís­lands telur þátt­töku dómara í al­mennri um­ræðu ekki heppi­lega og hefur tjáð efa­semdir sínar um að slíkt sam­rýmist dómara­störfum. Það getur ekki verið til of mikils mælst að dómarar haldi aftur af mál­frelsi sínu í þjóð­mála­um­ræðu, en láti þess í stað hags­muni dóms­valdsins í landinu njóta vafans.