Ég mun líklegast seint gleyma föstudeginum 13. mars 2020. Allavega ekki andartakinu þegar yfirmaður minn á kontórnum sagði: „Heyrðu Jón, það verður engin vinna á mánudaginn, við lokum um óákveðinn tíma.“ Frá því augnabliki hefur mér liðið eins og ég væri persóna í bók eftir Haruki Murakami.

Ég hef varla komið út undir bert loft síðan þá nema ég fékk fararleyfi til að fara í lítið þorp og búa hjá öldruðum og heilsuveilum tengdaforeldrum. Ég hef farið tvisvar út í búð. Í bæði skiptin var hleypt inn í hollum. Flestir eru með grímur og hálf meyrir.

Það er engin internet tenging hjá þeim gömlu svo fésbókin er orðin mér framandi. En ég les mikið og sé spænsku sjónvarpsfréttirnar. Kínverjar reyna að þróa bóluefni og fólk hér á Spáni, sem víðar, glímir við nístandi óvissu. Samt ber meira á mannúð en græðgi um þessar mundir. Sumir stjórnmálamenn eru komnir upp úr skotgröfunum og tala með uppbyggilegum hætti. Öðrum er ekki viðbjargandi. Sum mál sem áður þóttu áríðandi hljóma nú eins og hjóm.

Klukkan átta á kvöldin stígum við út á svalir og klöppum fyrir starfsfólki spítalanna. Sumir syngja til verndargyðjunnar. Það er hjartnæm stund.

Dóttir mín hefur tjaldað með rúmfötum og þar inni þinga dúkkurnar hennar. Ég gef mér tíma til að fara á það þing.

Ég ætla ekki að lofsama ástand sem hefur kostað svo mörg mannslíf en ég hef alla vega staldrað við, opnað augun og lært enn betur að greina hismið frá kjarnanum. Það er bóluefnið sem ég fann í kórónaveirunni.