Það er auðvelt að vinna kosningar nú til dags. Þú bara auglýsir sigur þinn á Twitter og ferð svo í golf þar sem fólk úr öðrum raunveruleikaþáttum nær ekki til þín. Lífið á tímum valreynda og falsfrétta er einmitt raunveruleikaþáttur þar sem sá sem nær að breiða sinn veruleika sem víðast vinnur.

Þetta er kannski ekkert nýtt. Franco framleiddi ógrynni falsfrétta, sem sumar hverjar lifa enn, enda duga engin sannindi til að viðhalda trú á einsleitri og samheldinni þjóð. Líklegast var hann þó ekki jafn afkastamikill og Santiago Abascal, formaður hægriöfgaflokksins Vox, sem náði að gera sér mat úr fjórtán falsfréttum í ræðustóli spænska þingsins í síðasta mánuði. Ein af ósannindunum úr þeim ranni eru þau að innflytjendur fái 2.000 evrur í bætur meðan aldraðir verði að láta sér hungurlúsina duga.

Nú hefur spænska stjórnin skorið upp herör gegn hagsmunalyginni en líklegast mun hún lifa eins lengi og við látum sviptivinda samfélagsmiðla ýfa upp ólguna milli eyrna okkar í stað þess að einbeita okkur aðeins að þeim veruleika sem blasir við fyrir augum okkar. Í mínu þorpi eru nú, til dæmis, komnir allmargir innflytjendur til að reyna að fá vinnu við ólífutínslu. Margir sofa úti á bekkjum í næturfrostinu en fara svo á rútubílastöðina að morgni þar sem landeigendur velja sér billegt vinnuafl fyrir daginn. Og meðan enginn hefur næga sannleiksást til að spyrja þessa innflytjendur hví fólk með tvö þúsund evrur á mánuði láti slík örlög yfir sig ganga lifir lygin eins og blómi í eggi.