Margir sögðu svipaða brandara í upphafi kófsins þegar það varð allt í einu algengt að hitta fólk einungis í gegnum tölvuskjái og eldhúsborðin á heimilum breyttust í vinnusvæði fyrir skrifstofufólk. Fólk sagði eitthvað á þá leið að félagsforðun væri einmitt lífsstíllinn sem hentaði þeim stórvel. Mörgum öðrum virðist hafa þótt það vera ágæt og kærkomin tilbreyting að geta mætt ótilhafður í vinnu og þurfa ekki að heyra aðrar manneskjur í kringum sig svara í síma, smjatta á tyggjói eða spjalla við aðra vinnufélaga; hvað þá að þurfa að finna lyktina af öðru fólki eða verða á nokkurn hátt áskynja um líðan þess og vandamál.

Var þetta kannski framtíðin sem við höfðum beðið eftir? Að við gætum hvert um sig setið ótrufluð í okkar friðsæla horni, algjörlega í eigin heimi—jafnvel í einhvers konar sýndarveruleika? Með því að geta unnið einn heima var jafnvel hægt að vera enn þá í náttfötunum klukkan tvö, eða vera jafnvel mjög klæðalítill, með slökkt á myndavélinni og taka þátt í fjarfundunum án þess að nokkur hefði hugmynd um að maður væri samhliða fundarhöldum um fjárhagsáætlun næsta árs að hreinsa ungbarnaælu úr rúmfötum, að horfa á Last Dance á Netflix á öðrum skjá, eða að slaka á í baði? Allir gátu bara tékkað sig andlega, líkamlega og vitsmunalega út af fundunum um leið og eitthvað sem ekki taldist beinlínis nauðsynlegt fyrir þá var tekið til umræðu.

Lyktin af fólki

Um leið og það fór að slakna á tauginni og útlit var fyrir að við værum orðin alveg laus við veiruvána þá urðum við flest áþreifanlega vör við ríka og djúpa þörf til þess að hitta og vera í kringum fólk. Það er auðveldara að hlæja í kringum fólk þegar maður sér það með berum augum. Meira að segja það að heyra í fjarska klið af samtölum, eða finna lyktina af fólki og snertast; allt eru þetta merki um að við sjálf séum á lífi. Fjarfundirnir gátu nefnilega aldrei komist nálægt því að uppfylla hina þöglu þrá um að finna fyrir því á hverjum degi að við séum lifandi verur í samfélagi við aðrar lifandi verur.

Vond tilfinning hefur því vafalaust tekið sig upp að nýju hjá mörgum við tíðindi síðustu viku. Fréttir af fyrstu tilfellum smits innanlands í meira en mánuð spurðust hratt út og voru að mörgu leyti harkalegri en áður. Vonbrigðin voru mikil. Margir fjölmiðlar virðast til að mynda hafa verið í svo miklu uppnámi að þeim brast dómgreind og birtu án leyfis nafn á manneskju sem greinst hafði með veiruna. Margir höfðu eflaust leyft sér að vona innst inni að Íslendingar þyrftu aldrei aftur að fara að fylgjast með því hversu mörg ný smit kæmu fram á degi hverjum. Og auðvitað var hægt að leyfa sér að vona að sumarið yrði þannig að Íslendingar gætu um frjálst höfuð strokið, óhræddir við veiruna. Aldraðir og þeir aðstandendur þeirra sem flokkast sem „viðkvæmir“ hafa þurft að þola miklar skorður á umgengni við ástvini sína, og það er vitaskuld þungbært að þurfa að hugsa til þess að önnur eins úrræði gætu verið í vændum.

Stöndum saman

Eins og sakir standa virðist ekki vera mikil ástæða til þess að ætla að við horfum fram á verulegt bakslag. Allt frá því að fyrsta bylgja sýkinga byrjaði að réna hefur verið margítrekað að þrátt fyrir að tekist hafi vel að ná stjórn á sýkingunni þá mætti alltaf gera ráð fyrir að upp gætu komið hópsýkingar og einstök tilvik. Líkurnar á slíku jukust þegar byrjað var að gefa fólki kost á því að losna við sóttkví gegn því að fara í veirupróf á landamærunum. Hugmyndin á bak við þá breytingu var ekki að koma algjörlega í veg fyrir að smit bærist til landsins—eina leiðin til þess er algjör og langvarandi lokun—heldur annars vegar að lágmarka líkurnar á að veiran berist til landsins, og hins vegar að gera okkur öllum kleift að bregðast við slíkri uppákomu með markvissum aðgerðum þannig að ekki þurfi allt að ganga úr skorðum í samfélaginu. Þetta virðist einmitt vera að takast.

Hin ljúfa tilfinning að fá aftur að hitta fólk og njóta þess að vera lifandi manneskjur með öðrum lifandi manneskjum er ein af mörgum ágætum lexíum úr kófinu. Og það minnir okkur líka á að til þess að viðhalda því ástandi þurfum við að vera tillitssöm, þolinmóð og standa saman um að gera að lífsvenjum þær reglur sem okkur hafa verið uppálagðar frá upphafi—að þvo hendur, spritta, vera ekki að flækjast út ef við erum veik og sýna hvert öðru tillitssemi, umburðarlyndi og kurteisi. Í þessu erum við öll í sama liðinu.