Því hefur verið spáð að á næstu 40 árum þurfi mannkynið að framleiða jafnmikið af mat og það hefur gert seinustu 8.000 árin. Miðað við núverandi framleiðsluog neysluhætti merkir það að við, mannkynið, þurfum að tvöfalda álagið á auðlindir jarðarinnar á þessum tíma. Á sama tíma er þekkt að í dag er matvælavinnsla ábyrg fyrir losun um 30% af gróðurhúsalofttegundum (allir einkabílar í heiminum losa um 2%). Álagið á jörðina er þegar allt of mikið. Verkefnið virðist óyfirstíganlegt. Íslendingar með sínar ríku auðlindir svo sem hreina orku, gnægð vatns og þekkingu bera hér ábyrgð. Í stöðunni felast tækifæri.

Matarskortur er ein af helstu ógnum mannkynsins

Hungursneyð áttunda áratugarins gæti orðið hjómið eitt ef þjóðir heimsins taka sig ekki taki hvað varðar matvælaframleiðslu. John Beddington, vísindalegur ráðgjafi ríkisstjórnar Bretlands og prófessor í hagnýtri líffræðitölfræði, hefur gengið svo langt að fullyrða að matvælaöryggi sé stærri og nærtækari ógn fyrir mannkynið en hlýnun jarðar, þótt vissulega séu þetta nátengdar ógnir. Heimurinn er ekki sanngjarn staður til að búa á. Fari fram sem stefnir mun matarskortur bitna harðast á þeim sem verst standa. Helmingur fátækasta hluta mannkynsins býr í Suður-Asíu. Þar búa líka 5 milljónir barna sem deyja úr fæðutengdum sjúkdómum eða hungri. Þróunarbanki Asíu spáir því að 1,6 milljarðar íbúa í Suður-Asíu muni innan skamms búa við verulega skert lífsgæði vegna skorts á matvælum. Víða um heim horfir til gríðarlegs vanda, takist mannkyninu ekki að framleiða meira af mat.

Við eigum að flytja út, en erum að flytja inn

Ísland er matvælaframleiðsluland. Hér standa sjávarútvegur og landbúnaður beint undir hátt í 7% af vergri landsframleiðslu. Heimsmeðaltalið er 3,3%. Samt erum við eftirbátar annarra Norðurlandaþjóða hvað varðar sjálf bærni í matvælaframleiðslu. Þrátt fyrir að búa við skilyrði til að framleiða, veiða og rækta hágæða matvæli á forsendum okkar ríku auðlinda, f lytjum við stóran hluta þess sem við neytum inn.

Margt er vel gert en hægt er að gera betur

Við Íslendingar getum langtum betur. Við getum byggt á styrkleikum okkar og sótt fram af af li svo um um munar. Nýkynnt aðgerðaáætlun Kristjáns Þórs Júlíussonar, áhersla Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur og orðræða Katrínar Jakobsdóttur eru meðal þeirra fersku tóna sem geta orðið að hljómkviðu sóknarinnar. Framganga íslenska sjávarklasans er þannig að eftir er tekið og víða eigum við fyrirtæki og mannvit sem um munar. Við eigum mikið inni í fiskeldi, bæði í fulleldi á landi og í sjó. Sjávarútvegur er sterkur, mjólkurgeirinn hefur verulega sótt í sig veðrið og ylrækt vaxið. Víða má finna sprotana. Betur má þó ef duga skal.

Við kunnum þetta

Það þarf að stíga fastar fram og sú sókn verður ekki leidd af neinum öðrum en stjórnvöldum í samstarfi við fyrirtæki og einkaaðila. Samhliða því að skýra ramma og kröfur er mikilvægt að skapa svigrúm til sóknar. Við þurfum að ganga lengra í virkjun jarðvarma til matvælaframleiðslu og verðið á orkunni þarf að vera ívilnandi. Við þurfum að færa framleiðsluna í stýrt umhverfi svo sem risavaxin gróðurhús og úthafskvíar fyrir fiskeldi, stærðin skiptir hér máli og skattalegir hvatar eru ákvarðandi þáttur. Við þurfum að efla þekkingu og halda stöðugt áfram að tæknivæða framleiðsluna. Við þurfum fleiri fyrirtæki í matvælatækni. Við þurfum að efla hringrásarhagkerfi með áherslu á sjálf bærni og fullnýtingu náttúruauðlinda. Listinn yfir þörf verkefni er endalaus. Það þarf ekki að óttast enda þekkingin hér mikil. Í raun má segja að við kunnum þetta vel enda höfum við nýverið gert sambærilega hluti í sjávarútvegi með góðum árangri.

Ölfus á óviðjafnanleg tækifæri

Sveitarfélagið Ölfus er í einstakri stöðu þegar kemur að matvælaframleiðslu. Hvergi á landinu er meiri nýtanlegur jarðvarmi, hvergi er aðgengið að fersku vatni meira, landrýmið er mikið, útflutningshöfnin góð, nálægð við alþjóðaflugvöllinn og lengi má áfram telja. Allt þetta er í miklu nábýli við fjölmennustu svæði landsins, háskóla og hvers konar sérfræðiþjónustu. Tækifærin eru því óþrjótandi.

Þekkingarsetur og auðlindagarður

Í nokkurn tíma hefur Sveitarfélagið Ölfus nú unnið með fyrirtækjum og einstaklingum að undirbúningi að stofnun Þekkingarseturs og reksturs auðlindagarðs með áherslu á umhverfisvæna matvælaframleiðslu og hringrásarhagkerf i. Innan þess klasasamstarfs eru nú þegar aðilar sem ýmist eru þegar í umsvifamikilli framleiðslu á matvælum eða stefna á slíkt. Stefnan er að veita frumkvöðlum svo mikla þjónustu sem mögulegt er. Stefnan er að vinna með stjórnvöldum, fyrirtækjum og einstaklingum að því að bregðast við stöðu matvælaframleiðslu og leggja lóð á þá vogarskál að Ísland verði ekki eingöngu sem mest sjálfbært hvað matvæli varðar heldur sterk útflutningsþjóð á sviði fjölbreyttrar matvælaframleiðslu. Tími aðgerða er runninn upp. Matvælalandið Ísland bíður þess að raungerast.