Í mér býr garð­yrkju­kona sem veit fátt betra en að moka skít og rækta eitt­hvað sem hægt er að borða. Enda úr sveit.

Það var því happa­fengur að garðinum í nýja húsinu mínu hafði ekki verið sinnt ára­tugum saman. Af því leiðir að ég hef undan­farin sjö sumur átt gæða­stundir í bar­áttunni við skrið­­sól­ey, oftast vopnuð stungu­skóflu þó mig hafi mest langað í gröfu. Þegar á leið gat ég gróður­sett ýmis­legt og byrjaði á rabarbara. Enda er hægt að borða hann. Mitt fram­lag til mat­væla­öryggis þjóðarinnar. Það var ekkert, Svan­dís.

Þegar dóttir mín kvartaði undan lit­leysi garðsins áttaði ég mig á að ég þyrfti að gefa fín­gerðari blæ­brigðum lífsins meira pláss. Rækta eitt­hvað sem ekki er hag­nýtt og má ekki borða. Þá bættust við blóm sem ég man ekkert hvað heita, í alls konar litum. Ef­laust má borða ein­hver þeirra.

Þar sem við búum í Laugar­dalnum er illa séð að vera með hús­dýr. Til­gangurinn með því að hafa risa­stórt tún í kringum húsið virðist því vera að slá það einu sinni í viku og fara með grasið í Sorpu. Mér skilst þó að gras hjálpi til við að halda and­rúms­loftinu hreinu og er því til í að sam­þykkja mikil­vægi þess, þó enginn borði grasið úr mínum garði. Enn­þá.

Toppurinn, eða botninn, á garð­yrkju­ferlinum er að nýta ýmsa matar­af­ganga í jarð­gerð. Við endum öll þar, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Ný­verið fagnaði ég því fyrsta moltu­skammtinum eins og nýju lífi, næstum því með titrandi efri­vör og tár á hvarmi. Enda er ekkert fal­legra en hring­rás lífsins.