Tækifæri til að efla innlenda matvælaframleiðslu eru mýmörg. Okkur stjórnmálamönnum er tamt að halda því á lofti; þetta er nokkuð öruggur frasi ef við viljum slá um okkur. Hugmyndir og frasar eru ágæt til síns brúks, en ef hugur fylgir máli er best að grípa til aðgerða. Með það að leiðarljósi hef ég lagt fram þingmál sem skilar sér í stofnun matvælaframleiðslu- og menntunarklasa á Árborgarsvæðinu sem ég hvet fólk til að kynna sér.

Heimsfaraldur og loftslagsvá hafa sýnt fram á nauðsyn þess að hvert samfélag sé sem sjálf bærast. Því skiptir máli að nýta sem best þau tækifæri sem hér bjóðast með sjálf bærni að leiðarljósi. Í því samhengi er mikilvægt að stuðla að og styrkja starfsemi í geiranum og efla menntun sem næst þeim svæðum þar sem framleiðslan fer fram.

Suðurland er blómlegt matvælaframleiðsluhérað. Þar fer stór hluti grænmetisframleiðslu landsins fram, enda aðstæður sérstaklega góðar hvað jarðhita varðar og stutt er á helsta markað. Kornrækt er mikil og tækifæri til að efla hana mýmörg. Garðyrkjuskólinn að Reykjum hefur verið vagga íslenskrar garðyrkju áratugum saman og einboðið er að nýta aðstöðu og búnað að Reykjum í tengslum við matvælaframleiðsluklasa. Í Gunnarsholti eru stundaðar umfangsmiklar rannsóknir á ýmiss konar ræktun sem nauðsynlegt er að verði hluti af samstarfi um klasann. Mjólkurframleiðsla er öflug á svæðinu enda landkostir miklir hvað hana varðar.

Efla þarf það góða starf sem þegar er unnið víða í geiranum. Svo hægt sé að efla kornrækt til manneldis, sem er ákaflega mikilvægt til þess að styrkja fæðuöryggi landsins, þarf að stunda yrkjaprófanir með reglubundnum hætti. Sú starfsemi getur ekki sótt í nýsköpunarsjóði þar sem nýnæmi yrkjaprófana er takmarkað og ætti að teljast til grunnrannsókna sem væru fjármagnaðar sem slíkar af fjárlögum.

Klasi um matvælaframleiðslu og menntun yrði samstarfsverkefni fjölmargra. Þetta er þjóðþrifamál sem þarf að komast til framkvæmda sem fyrst.