Hver kannast ekki við að vilja gera eitthvað gott fyrir samfélagið sitt – að hafa einhvern æðri tilgang umfram það að hugsa einungis um sjálfan sig? Gott dæmi um það er umræða síðasta árs um loftslagsbreytingar og hvað er hægt að gera til að snúa þróuninni við. En það eru fleiri aðkallandi vandamál sem við glímum við í heiminum í dag eins og að fæða 10 milljarða jarðarbúa eftir 30 ár. Einnig er vitað að í dag eru um 820 milljónir manns sem glíma við vannæringu og tveir milljarðar eru í ofþyngd eða offitu (líkamsþyngdarstuðull ≥ 25 kg/m2).

EAT-rannsóknarhópur

Hópur vísindamanna (EAT-Lancet Commision) birti í hinu virta vísindatímariti Lancet útreikninga sem sýna hvernig við getum átt til mat fyrir alla, dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda og minnkað líkur á ýmsum sjúkdómum. Vísindamennirnir skoðuðu mismunandi tegundir af mataræði og reiknuðu út fyrir hvert fæðumynstur hvaða áhrif það hefði á losun gróðurhúsalofttegunda og bætta heilsu jarðarbúa með því að skoða fækkun á ótímabærum dauðsföllum. Algengustu ótímabæru dánarorsakirnar (80%) í heiminum koma til vegna hjarta- og æðasjúkdóma, krabbameina, öndunarfærasjúkdóma og sykursýki. Þegar talað er um ótímabær dauðsföll er átti við að látast fyrir 75 ára aldur og að það hefði verið hægt að koma í veg fyrir það með viðeigandi meðferð eða forvörnum. Þar kemur fram að óhollt mataræði veldur fleiri sjúkdómum og dauðsföllum en reykingar, misnotkun lyfja, neysla vímuefna og áfengisneysla samanlagt.

„Það er í raun verra fyrir heilsuna að sleppa því að borða hollan mat, til dæmis ávexti, grænmeti, baunir og heilkornavörur, en það að borða óhollar matvörur.“

Samkvæmt útreikningum áðurnefndra vísindamanna kom matar­æði sem kallast „flexitarian“ best út sem grunnur að almennum ráðleggingum. Grænkerafæði kom reyndar betur út með tilliti til áhrifa á dauðsföll og umhverfi en talið er erfiðara í framkvæmd að beina öllum í þá átt þó það sé auðvitað val hvers og eins hversu langt er gengið í að fjarlægja dýraafurðir úr fæðinu. Hér getur líka verið meiri hætta á næringarskorti og á það sérstaklega við um börn, unglinga og konur á barneignaraldri.

Flexitarian eða vistkeri

Flexitarian mataræði byggir að mestum hluta á fæðutegundum sem koma úr jurtaríkinu og að minnka verulega neyslu á rauðu kjöti niður í um það bil 100 grömm á viku að meðaltali. Þetta er viðmið sem má laga að aðstæðum og menningu í hverju landi ef sjálfbærni er höfð að leiðarljósi. Þessi tillaga byggir að stórum hluta á þeim vanda sem blasir við eftir 30 ár ef jarðarbúar halda áfram að auka neyslu kjöts eins og þróunin hefur verið á síðustu áratugum í heiminum. Samhliða aukinni fólksfjölgun þarf meira pláss fyrir dýraeldi á jörðinni – pláss sem við eigum ekki endalaust af. Íslenskir bændur eru reyndar þegar byrjaðir að huga að kolefnisjöfnun og að minnka vistspor íslenskrar kjötframleiðslu. Vakning og umræða um loftslagsmál og matvælaframleiðslu hefur því haft jákvæð áhrif.

Sú tillaga hefur komið upp að kalla þá sem fylgja „flexitarian“ mataræði „vistkera“ þar sem þetta mataræði styður við vistkerfi jarðarinnar með aukinni sjálfbærni í matvælaframleiðslu, betri nýtingu lands og minni losun gróðurhúsalofttegunda. Í bónus getum við bætt heilsuna með þessu mataræði.

Málþing næsta miðvikudag

Miðvikudaginn 22. janúar verður haldið málþing kl. 20.00 í Hörpunni á vegum Læknafélagsins þar sem við munum fjalla nánar um „flexitarian“ mataræðið og bera saman við aðrar stefnur í mataræði. Aðgangur á málþingið er ókeypis og allir velkomnir.