Theresa May fór enn eina fýlu­ferðina til Brussel í vikunni. Leið­togar Evrópu­sam­bands­ríkjanna virðast harðir á því að gefa ekki frekar eftir í samningum við Breta um út­göngu. Valið virðist snúast um samning May, sem hún hefur heykst á að leggja fyrir þingið, eða alls engan samning. 

Flestir eru sam­mála um að út­göngu án samnings beri að forðast með öllum til­tækum ráðum. Sam­kvæmt spá Eng­lands­banka myndi slík niður­staða valda efna­hags­legum ham­förum, mun verri en í banka­krísunni 2008. Bankinn telur að­hag­vöxtur myndi dragast saman um 8 prósent á einni nóttu, sterlings­pundið myndi hríð­falla og eigna­verð sömu­leiðis. 

Meðan ekkert annað er í hendi verður þessi niður­staða hins vegar lík­legri með hverjum deginum sem líður. Ljóst var að May hefði aldrei komið samningnum í nú­verandi mynd gegnum þingið. Þess vegna hætti hún við. 

Síðan hefur for­sætis­ráð­herrann sigrast á van­trausts­til­lögu frá sam­flokks­mönnum sínum, en að öðru leyti er ekkert breytt. Samningurinn er enn sá sami, og ekki gott að segja hvers vegna þing­menn ættu að sam­þykkja hann nú frekar en áður. 

Staða May er því gríðar­lega þröng. Ein­hverjir þing­manna berjast fyrir því að Bretar gangi í Evrópska efna­hags­svæðið. En hví ætti stór­þjóð eins og Bret­land að sam­þykkja skyldu til að taka við lögum ESB án þess að hafa nokkuð um það að segja? Varla snýst hug­myndin um Brexit um að hafa enn minna að segja um eigin ör­lög. Enn aðrir vilja svo­kallaða Kana­da­leið, það er að segja víð­feðman frí­verslunar­samning við ESB. 

Slíkt tekur hins vegar ár og jafn­vel ára­tugi að semja um. Erfitt er að sjá hvaða lausn er fólgin í því á þessari stundu. Tíminn er ein­fald­lega að renna út. Draumurinn um Brexit er að breytast í mar­tröð. For­sætis­ráð­herrann virðist engin tromp hafa á hendi. Þingið veit ekki í hvorn fótinn það á að stíga. Sann­leikurinn er sá að Brexit-at­kvæða­greiðslan fór fram án þess að nægar upp­lýsingar lægju fyrir um hvað tæki við. 

Út­göngu­sinnar lugu þjóðina fulla og gengust við því strax að kvöldi kjör­dags. Þetta var lygi­lega ljótur leikur sem margt hóf­samt fólk varaði við með góðum rökum – ekki síst á­byrg flokks­syst­kin Theresu May, sem nú situr í súpunni. Nú er að koma í ljóst hvað felst í Brexit. Al­ger ringul­reið að því er virðist. Er ekki kominn tími til að Bretar fái aftur að segja álit sitt á málinu þegar helstu for­sendur liggja fyrir? Það er eina sjáan­lega leiðin til að höggva á þann ó­leysan­lega hnút sem stjórn­mála­mönnunum hefur tekist að hnýta.